Sönn norðlensk sakamál – Helstu mál lögreglunnar 12.-19. febrúar

Sönn Norðlensk sakamál er yfirlit yfir helstu verkefni lögreglunnar á Norðurlandi eystra í vikunni sem leið og birtist í Norðurlandi, fréttablaði 22. febrúar. Þessi þáttur er unninn í samstarfi við lögregluna og er ætlaður til að upplýsa samfélagið um það fjölbreytta starf sem lögreglan vinnur og þau saknæmu athæfi sem eiga sér stað í nærumhverfi okkar daglega.

Lögreglustöðin á Akureyri.

Vikan 12. – 19. febrúar gekk nokkuð vel hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra en vegna vetrarfría í skólum á landinu var fjöldi fólks mættur norður á land m.a. til að njóta útiveru á skíðasvæðum Norðurlands og því var töluverð umferð um svæði embættisins.

Í vikunni voru tilkynnt til lögreglunnar 19 umferðaróhöpp og í fjórum tilfella slasaðist fólk.

  • Í einu af þessum óhöppum reyndist ökumaður vera undir áhrifum fíkniefna.
  • Tveir ökumenn voru kærðir fyrir of hraðan akstur.
  • Tveir ökumenn voru stöðvaðir vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis.
  • Tveir aðrir ökumenn voru stöðvaðir vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna.
  • Í öðru þeirra tilviki fannst nokkurt magn af kannabis í ökutækinu.
  • Ein minniháttar líkamsárás kom inn á borð lögreglunnar en óvíst er hvort kæra muni berast í því máli.

Lögreglan á Norðurlandi eystra fór í sérstakt átak frá 12.-18. febrúar undir yfirskriftinni: Gefum símanum frí. Þá voru lögreglumenn í umdæminu með sérstakt eftirlit er varðar ökumenn sem eru í símanum við akstur. Alls voru sex ökumenn kærðir fyrir að nota farsíma við akstur, án handfrjáls búnaðar.

Alvarleg líkamsárás og frelsissvipting á Akureyri
Fimm einstaklingar voru handteknir í umfangsmiklum lögregluaðgerðum við Strandgötu á Akureyri föstudaginn 9. febrúar. Lögreglumenn á Akureyri, Húsavík og Dalvík tóku þátt í aðgerðinni, auk sérsveitarmanna. Þá voru framkvæmdar húsleitir á nokkrum stöðum og tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu aðstoðaði við þá vinnu. Þeir handteknu voru grunaðir um alvarlega líkamsárás og frelsissviptingu á rúmlega þrítugum karlmanni en flestir þeirra hafa komið áður við sögu hjá lögreglu ýmist vegna ofbeldismála eða fíkniefnamála. Eftir yfirheyrslur var tveimur sleppt úr haldi en farið fram á vikulangt gæsluvarðhald yfir fjórum vegna rannsóknarhagsmuna.

Föstudaginn 16. febrúar voru þrír af fjórum einstaklingum, sem grunaðir voru um aðild að þessu máli, látnir lausir úr gæsluvarðhaldi. Ekki var talið að rannsóknarhagsmunir krefðust þess lengur að halda þeim, þar sem yfirheyrslur höfðu gefið skýrari mynd af því sem átti sér stað.
Gæsluvarðhald yfir fjórða einstaklingnum rann svo út kl.15 laugardaginn 17. febrúar. Ekki var krafist áframhaldandi gæsluvarðhalds yfir honum en rannsóknin heldur áfram og næstu skref snúa að þeim sönnunargögnum sem aflað hefur verið.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó