Tvíeykið Dúo Las Ardillas samanstendur af hörpuleikaranum Sólveigu Thoroddsen Jónsdóttur, sem fæddist í Reykjavík og lútuleikaranum Sergio Coto Blanco, sem fæddist í San José í Kosta Ríka. Sólveig og Sergio kynntust í Bremen í Þýskalandi, þar sem þau stunduðu bæði nám í flutningi endurreisnar- og barokktónlistar á söguleg hljóðfæri við Die Hochschule für Künste Bremen. Tvíeykið hóf störf sumarið 2016 og hefur haldið tónleika á Íslandi, í Þýskalandi og í Kosta Ríka. Það sérhæfir sig í endurreisnar- og snemmbarokktónlist og útsetur einnig íslensk þjóðlög í endurreisnarstíl.
Sólveig og Sergio semja líka stundum eigin tilbrigði við gömul stef og spinna yfir bassalínur eins og tíðkaðist á endurreisnartímanum og fram á barokktímann. Á tónleikunum sem fram fara í Akureyrarkirkju sunnudaginn 29. júlí kl. 17:00 leikur Sólveig á ítalska þríraðahörpu og Sergio á endurreisnarlútu. Á efnisskránni eru verk eftir John Dowland, Orlando di Lasso, Giovanni Antonio Terzi, Pierre Attaingnant og Giovanni Maria Trabaci, sem og íslensk þjóðlög. Aðgangur er ókeypis.
UMMÆLI