Sólveig Lára er Ungskáld AkureyrarVerðlaunahafar Ungskálda 2024. Frá vinstri: Ágústa Arnþórsdóttir, Sólveig Lára Skarphéðinsdóttir og Sigrún Freygerður Finnsdóttir.Mynd/akureyri.is

Sólveig Lára er Ungskáld Akureyrar

Það var vel við hæfi að í dag, á degi íslenskrar tungu, voru úrslit í ritlistakeppni Ungskálda 2024 kunngjörð á Amtsbókasafninu. Fyrstu veðlaun hlaut Sólveig Lára Skarphéðinsdóttir fyrir verkið Stök.

Alls bárust 26 verk í keppnina frá 18 þátttakendum. Úrslit voru sem hér segir (smellið á titlana til að lesa verkin):

  1. Sólveig Lára Skarphéðinsdóttir, 18 ára, fyrir verkið Stök
  2. Ágústa Arnþórsdóttir, 16 ára, fyrir verkið Frestunarárátta
  3. Sigrún Freygerður Finnsdóttir, 18 ára, fyrir verkið Svartnætti

Í dómnefndinni sátu Arnar Már Arngrímsson, rithöfundur, Rakel Hinriksdóttir, listamaður og skáld, og Vilhjálmur B. Bragason, vandræðaskáld.

Þetta er 12. árið sem Ungskáldaverkefnið er starfrækt og hefur það vaxið og dafnað með hverju árinu. Á þessu ári var boðið upp á Kaffihúsakvöld þar sem ungskáld gátu lesið úr verkum sínum og rætt málin og einnig tvær ritlistasmiðjur þar sem annars vegar Vigdís Hafliðadóttir, söngkona, uppistandari og textasmiður, og hins vegar Ævar Þór Benediktsson, rithöfundur, öðru nafni Ævar vísindamaður, voru leiðbeinendur. Kaffihúsakvöldið og ritlistasmiðjurnar gátu ungmennin sótt sér að kostnaðarlausu.

Við athöfnina á Amtsbókasafninu lék Elías Dýrfjörð á kontrabassa.

Í nefnd Ungskálda eru fulltrúar frá atvinnu-, markaðs- og menningarteymi Akureyrarbæjar, Verkmenntaskólanum á Akureyri, Menntaskólanum á Akureyri, Ungmennahúsinu í Rósenborg og Amtbókasafninu.

Verkefnið er styrkt af Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra og Akureyrarbæ.

Sambíó

UMMÆLI