„Soldið lasinn”

„Soldið lasinn”

Þeir eru hlýjir og mjúkir þessir gullnu síðsumardagar sem við njótum þessa daganna. Framhald af einstaklega veðursælu sumri hér norðanlands, sumri sem minnti á bernskusumrin mín, þegar vetur voru kaldir og snjóþungir og sumrin hlý og sólrík. Silfurreynirinn í næsta garði á bara eftir að lita berin sín með svolitlu af rauðu og allur gróður sem náði sér í einhverja vætu hefur vaxið og blómgast upp um allar koppagrundir. Þetta ljúfa ljúfa veður er kannski svolítill plástur á sárin okkar því að öll göngum við inn í þetta haust í óvissu og ótta. Það er rökrétt afleiðing þess að heimsmyndin okkar hefur skekkst og öryggistilfinningin stendur á brauðfótum. Það er ekki nóg með það að heimsfaraldurinn ætli ekki að gera það endasleppt heldur erum við líka að upplifa loftslagsógn af mannavöldum. Við höfum sannarlega hagað okkur eins og höfundar og réttmætir eigendur að náttúrunni og jörðinni okkar en hvorugt er rétt og nú er komið að þolmörkum. Það er ein af grunnþörfum manneskjunnar að búa við einhverja staðfestu eða öryggi í tilverunni og það er vegið að þessu öryggi um þessar mundir.

Tilveran er „soldið lasin” eins og eitt af mínum barnabörnum myndi orða það og það er okkur erfitt að geta ekki séð hvað er handan við næsta horn. Öll getum við eflaust tekið undir það að lausnin sé í okkar eigin höndum en okkur ber ekki alltaf saman um það hver hún eigi að vera. Öfl sem snúast um peninga og völd berjast við vísindi og mannúð, það er gömul saga og ný. Meira að segja hér á litla landinu bláa, virðast æ fleiri vera farnir að trúa því að það sé ásættanlegt að tapa mannslífum, heilsu og jafnvel heilu heilbrigðiskerfi bara ef við missum ekki spón úr askinum okkar. Eða allavega ef einhverjir þarna úti missa ekki einhvern spón úr óskilgreindum aski. Við erum öll hrædd og þegar hræðslan nær á okkur tökum rýkur oft dómgreindin út um gluggann. Kosningar og barátta um völd blandast svo inn í allt klabbið og menn hætta að taka skynsamlegar ákvarðanir af ótta við að tapa vinsældum.

Það er önnur grunnþörf mannsins, nátengd þeirri sem ég nefndi áðan  að upplifa að við höfum stjórn á aðstæðum okkar. Og af því að það er okkur svo mikilvægt, verður auðvelt að selja okkur hugmyndir um það hvernig við náum stjórn á aðstæðum, hvert og eitt. Við jafnvel trúum því að það sé nauðsynlegt að fara ekki að því sem stjórnvöld boða og jafnvel það að láta ekki bólusetja sig verður tákn um að maður hafi einhverslags stjórn á tilverunni.  Og sannarlega er það í þágu stórfyrirtækja og iðnríkja að við trúum því að bara ef við skiptum yfir í rafmagnsbíl eða reiðhjól þá muni okkur takast að koma í veg fyrir loftslagsvána sem öllu ógnar.

Við höfum auðvitað val um að haga okkur af skynsemi og af yfirvegun. Og auðvitað er langbest að byrja á okkur sjálfum um leið og við leggjum öllum skynsamlegum samfélagslegum málsstað lið.  Að horfast í augu við og samþykkja það að við erum öll í sama báti, við erum öll lítil og hrædd en sameinuð erum við býsna sterk. Um það snýst velferðarkerfið okkar og ég held að hvað sem öllu líður þá sé ekkert okkar tilbúið til að fórna sameiginlegum hagsmunum og örygginu sem felst í því að eiga jafnan aðgang að góðu heilbrigðiskerfi.

Og þó að haustið sé hlýtt og gott þá styttist samt í vetur og það verður vetur með veiru, enn og aftur hvort sem okkur líkar betur eða verr. Það er gott að horfast í augu við eigin ótta og gefa honum rými, þá er minni hætt á að hann valdi okkur tjóni.  Við getum þá haldið áfram að njóta stundanna þrátt fyrir allt og upplifað haustið með von og tilhlökkun, tína ber og klífa fjöll. Haustið er nefnilega angurvært í eðli sínu,  það er tími til að una því sem er og hvíla í þeirri fullvissu að allt líður hjá, bæði gott og slæmt.


Vilt þú birta grein á Kaffið.is? Sendu á okkur með því að smella hér

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó