Snúum bökum saman

Snúum bökum saman

Sunna Hlín Jóhannesdóttir skrifar:

Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi Eystra standa fyrir áhugaverðu málþingi í Hofi á föstudaginn undir yfirskriftinni Út um borg og bý: Hverju skilar samstarf nágranna og hvað prýðir gott sveitarfélag?

Jarðhræringar á Reykjanesi hafa vissulega vakið okkur til umhugsunar um byggðaþróun, einkum í ljósi þess að í dag búa tæp 82% þjóðarinnar á svæðinu Hvítá til Hvítá og að öllu óbreyttu verður áframhaldandi samþjöppun á því svæði. Er þetta virkilega það sem við viljum sjá, að allir íbúar landsins þjappi sér á eitt landsvæði? Eða viljum við öfluga byggðir um allt land sem byggja á fjölbreyttum mannauði og auðlindum?

Á málþinginu verður tekin umræða um vinnu við borgarstefnu en það er kominn tími til að Akureyri hljóti formlega viðurkenningu sem hin borgin og að stjórnvöld geti út frá því unnið að eflingu hennar sem mikilvægur valkostur við höfuðborgarsvæðið. Eyjafjarðarsvæðið hefur alla burði til þess með sameiginlegu átaki. Við eflum ekki sveitir landsins og minni byggðakjarna nema með góðri þjónustu og innviðum í nærumhverfi. Til að halda í unga fólkið okkar og laða að nýja íbúa og spennandi atvinnutækifæri þurfa ákveðnir grunnstoðir að vera í lagi: Menntun, samgöngur, næg orka, góðar nettengingar, beint millilandaflug, heilbrigðisþjónusta og þá sér í lagi þjónusta sérfræðilækna, fjölbreytt húsnæði og afþreying. 

Fyrst og fremst eiga sveitarfélögin á svæðinu að snúa bökum saman og vinna saman að eflingu svæðisins í góðu samtali. 

Höfundur er oddviti Framsóknar á Akureyri

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó