Snúið við til Keflavíkur vegna veðurs

Þota frá Enter-air sem átti að lenda á Akureyrarvelli þurfti að snúa við til Keflavíkur vegna veðurs. Þetta er önnur ferðin af þremur frá ferðaskrifstofunni Super Break þar sem þurfti að hætta við lendingu á Akureyri en á mánudag þurfti vél frá Enter-Air að snúa við til Keflavíkur einnig vegna veðurs. Farþegarnir komu til baka með rútu um nóttina.

Vélin átti upphaflega að lenda 12:20 á Akureyrarvelli og var þá veður ágætt. Förinni seinkaði svo um hálftíma og var þá veður orðið of slæmt fyrir lendingu en vélin hringsólaði hér í smá tíma og beið eftir að veðrið gengi yfir. Að lokum ákváðu flugmenn að snúa við til Keflavíkur.

Eins og fram hefur komið vantar svokallaðan ILS aðflugsbúnað við Akureyraflugvöll. Það takmarkar lendingu á vellinum í slæmu skyggni. „Þeir hefðu getað lent ef slíkur búnaður væri kominn hér upp,” segir Hjördís Þórhallsdóttir, flugvallarstjóri á Akureyrarflugvelli.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó