Fyrsta hret haustsins er væntanlegt á Norðurlandi. Theadór Freyr Hervarsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir „Því er spáð að það muni snjóa fyrir ofan 200 metra á Norðurlandi,“
Líklegt er að með allhvassri norðanátt í nótt og á morgun og hita um 2 til 5 stig á lálendi fyrir norðan að úrkoma fyrir ofan 200 metra yfir sjávarmáli falli þá sem slydda eða snjókoma.
Við þessar aðstæður er líklegt að það myndist krapi á fjallvegum á Norðurlandi og segir Theodór að vegfarendur ættu að hafa það í huga.
„Þetta er fyrsta vetrarfærið sem við fáum á heiðum fyrir norðan nú í haust,“ segir Theodór en hann brýnir fyrir fólki að fara að öllu með gát.
„Fólk ætti að aka varlega og sleppa því að fara ef það er illa búið og færðin er vond.“
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á fimmtudag:
Vestlæg átt, 3-8 m/s. Léttskýjað að mestu um landið austanvert, annars skýjað en þurrt. Hiti 3 til 9 stig að deginum, hlýjast suðaustanlands.
Á föstudag:
Suðaustlæg átt, hlýnandi veður og fer að rigna suðvestanlands, en víða bjartviðri N- og A-til.
Á laugardag og sunnudag:
Suðlæg átt og rigning eða skúrir, en bjartviðri að mestu norðaustantil. Hiti 6 til 11 stig.
Á mánudag:
Snýst til norðlægrar átta með rigningu um mest allt land. Kólnar smám saman.
Á þriðjudag:
Útlit fyrir norðanátt um landið vestanvert, en austlæari austantil. Rigning og sums staðar slydda á norðurhelmingi landsins en yfirleitt þurrt syðra. Svalt í veðri.
UMMÆLI