Snemma í háttinn

Snemma í háttinn

Ég held að flestir geti verið sammála um að kórónuveirufaraldurinn er búinn að setja mark sitt á alla. Við værum alveg til í að sleppa þessaðri blessuðu veiru. En það er því miður ekki hægt og erum við núna að læra að lifa með henni. Veiran hefur kennt okkur margt og eitt af því er að fara fyrr að sofa. Veitingastaðir, barir og skemmtistaðir þurfa nefninlega að loka fyrr en vanalega þannig nú er ekki sá möguleiki að hanga niðri í bæ fram undir morgun.

Djammmenning á Íslandi er svolítið sérstök. Við byrjum ekki að drekka fyrr en kringum miðnætti og svo er förinni heitið niður í bæ. Fjörið byrjar yfirleitt ekki fyrr en um tvöleytið. Svo skilar maður sér ekki heim fyrr en í morgunsólinni. Erlendis tíðkast miklu frekar að borða saman um kvöldið og fara út að skemmta sér í beinu framhaldi. Síðan er teitið búið kannski um miðnætti og fólk fer heim að sofa. Þá er dagurinn eftir ekki alveg ónýtur eins og hjá íslenska djammfólkinu. Svefninn fer nefninlega alveg í rugl ef maður vakir alla nóttina, það segir sig sjálft.

Svefn er einn af grunnþáttum góðrar heilsu eins og margir vita. Og sífellt eru að koma nýjar upplýsingar um mikilvægi þess að tileinka sér góða svefnrútínu. Það felur m.a. í sér að koma sér í ró áður en farið er í rúmið. Ekki taka kröftuga æfingu seint um kvöldið sem vekur allt kerfið. Mikilvægt er að halda sig frá öllum tegundum af skjám um klukkutíma áður en farið er í rúmið. Frekar að gera eitthvað annað eins og lesa bók, gera handavinnu, spila í rólegheitum eða fara í heitt bað. Og svo er ráðlagt fólki að fara yfirleitt að sofa á sama tíma og vakna á sama tíma. Óháð því hvaða dagur er. Þá veit líkami þinn hvenær tími svefnsins er og þá er mun auðveldara fyrir hann að framkalla djúpan og endurnærandi svefn. Þetta hljómar kannski ómögulegt og öfgakennt en þó að maður nái ekki að fylgja þessum viðmiðum alla daga er gott að miða við þetta almennt. Og þegar maður þarf að fara út fyrir þennan ramma, þá munar miklu hvort það er 2 klukkutímar eða 10 klukkutímar í mismun.

Kannski mun íslensk djammmenning breytast í kjölfar COVID og eiginlega hálfpartinn vonast ég til þess. Enda er ég ekki mikill næturhani. Ég er í miklu meira stuði yfir hábjartan dag. Mér hefur því gengið erfiðlega að fara út að skemmta mér þar sem ég er orðin svo þreytt þegar fjörið byrjar. Maður neyðist hálfpartinn til að drekka áfengi bara til að halda sér vakandi! En áfengi er ekki fyrir alla og mér finnst það líka vera ansi dýrt sport. Mér líst miklu betur á þessa breytingu í samfélaginu að djamma fyrr. Skemmtum okkur snemma og förum snemma í háttinn.

*good sleep is good self love*


Vilt þú birta grein á Kaffið.is? Sendu á okkur með því að smella hér

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó