Framsókn

Smíðaði hundrað myntmottur fyrir Frost í tilefni af Mottumars 2024

Smíðaði hundrað myntmottur fyrir Frost í tilefni af Mottumars 2024

Næstkomandi föstudag, 1. mars, hefst Mottumars – hið árlega átak Krabbameinsfélags Íslands og aðildarfélaga þess um allt land. Mottumars er hvatningarátak til karla um að halda vöku sinni gagnvart þeim vágesti sem krabbamein er og í ár er lögð áhersla á gildi hreyfingar sem forvarnar gegn krabbameinum. Jafnframt hefur Mottumars það að markmiði að safna fjármunum til þess að styrkja krabbameinsfélögin í landinu í sínu þarfa og mikilvæga starfi.

Í tilefni af Mottumars gefur Frost öllum starfsmönnum sínum mottu-barmnælur sem þúsundþjalasmiðurinn og vélsmiðurinn Hörður Óskarsson hefur smíðað úr mynt – gömlum einnar krónu og fimm krónu peningum og kallar Myntmottur. Þetta kemur fram í umfjöllun á vef Frost.

Frá 2017 hefur Hörður haft það áhugamál að smíða skartgripi af ýmsum toga úr gamalli mynt. Í byrjun smíðaði hann hringi úr myntinni en síðan hefur smíðin þróast og til hefur orðið fjölbreytt skart, m.a. Myntmotturnar. Smíðagripi sína kynnir Hörður á fb.síðunni Mynthringir og allskonar.

Guðmundur H. Hannesson, framkvæmdastjóri Frost, segir það hafa verið sjálfgefið að leita til Harðar að taka þetta smíðaverkefni að sér enda sé hann fyrrum starfsmaður fyrirtækisins. Hjá Frost starfaði Hörður frá 1995 til 2006 þegar hann færði sig um set og hefur síðan verið við kennslu og brautarstjórn á málmiðnbraut Verkmenntaskólans á Akureyri.

Frá því Hörður hóf smíði á skartgripum úr mynt hefur hann styrkt Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis veglega með því að láta hluta söluandvirðis smíðagripa sinna renna til félagsins. Á þennan hátt vill Hörður styðja við mikilvægt starf Krabbameinsfélagsins og jafnframt minnast bróður síns heitins, Sigurðar Viðars Óskarssonar, sem lést úr krabbameini árið 2010. Hann var borinn til grafar á fimmtugs afmælisdegi sínum, 25. nóvember 2010.

Vert er að geta þess að myntmottur Harðar eru til sölu hjá Krabbameinsfélagi Íslands og Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrennis. Einnig er hægt að panta þær í gegnum fb.síðuna Mynthringir og allskonar.

Guðmundur framkvæmdastjóri Frosts hvetur alla til þess að leggja þessu góða málefni lið. Stuðningur almennings og fyrirtækja við forvarnir krabbameinsfélaganna og að styðja fólk sem greinist með krabbamein og aðstandendur þeirra skipti gríðarlega miklu máli.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó