Framsókn

Slúður í smáum bæjarfélögum

Slúður í smáum bæjarfélögum

Gréta Bergrún hefur staðið að doktorsverkefni sínu við Háskólann á Akureyri og því lýkur nú brátt með doktorsvörn hennar. Að sögn doktorsnemans eru þeir sem slúðrað er um tvöfalt líklegri til þess að ætla að flytja burt úr bæjarfélagi sínu, en verkefnið hennar snýst að því að skoða slúður í smáum bæjarfélögum á Íslandi. Gréta tók 24 viðtöl við konur allstaðar af landinu en þó einungis í þorpum þar sem íbúafjöldi var á bilinu 100-500 manns, eða við brottfluttar konu úr þeim þorpum. Þó svo að viðtölin hafi einungis verið við konur þá slúðra karlar alveg jafn mikið að hennar sögn. Slúðrið er þó öðruvísi, en oft snýr það að drusluskömm hvað varðar konurnar, en aumingjahátt hvað varðar karlana og nefnir hún fyrirbærin „druslur og dusilmenni“ sem nokkurs konar stimpil sem kynin geta fengið.

Gréta tekur einnig fram að viðurnefnin festast frekar við konurnar, til að mynda nefnir hún orðin „almannagjá“ og „Birkihlíðarbrókin“ og eru þær mun líklegri til þess að vera álitnar hjónadjöflar heldur en karlar. Eina viðurnefnið sem var um karlmenn var „gulltyppið“ sem hún telur ekki niðrandi heldur hluti af reðurdýrkun.

Slíkt slúður á verst við þá sem eru jaðarsettir í samfélögum og eiga ekki sterkt bakland að styðjast við. Því það hefur áhrif hver segir hvað og um hvern og tekur Gréta dæmi um slíkt: „til dæmis sveitastjórinn, hann hefur miklu meira vald niður á við, þannig ef hann segir eitthvað ljótt um einhvern, eða yfirmaður í fyrirtækinu, þá getur það haft margföldunaráhrif fyrir þann sem stendur neðst í stiganum. Alveg eins og sá sem er neðst í samfélagstiganum getur galað upp og það skiptir engu máli.“

Verkefnið hefur þróast hjá Grétu en hún vildi gera eitthvað meira með þá þekkingu sem hún hafði öðlast og að ekki einungis fræðimenn fengju að njóta góðs af, heldur fannst henni lítið gagn koma af því án þess að setja verkefni sitt í virkni í samfélaginu. Því hefur hún til dæmis haldið ráðgjafafyrirlestra fyrir sveitarfélög þar sem hún kynnir áhrif slúðurs en að hennar sögn er þetta eitthvað sem allir í samfélaginu vita af en gera sér ekki endilega grein fyrir þeim þáttum sem snúa að valdbeitingu. Að hennar sögn er hún að að koma þessu fram á mannamáli og að opna á umræðuna.

Við erum alltof ginkeypt, við þurfum að vera miklu gagnrýnni, við þurfum að efast miklu meira – ef við heyrum eitthvað þá leyfa því að fara út um hitt eyrað.“

Þegar hún kemur inn á slúður líkir hún því við krydd þ.e., þegar við heyrum sögu þá bætum við smá kryddi við hana til þess að gera hana trúverðugri eða áhugaverðari. Því næst líkir hún því við hvísluleik þar sem sagan sem heyrist um bæinn breytir um mynd því oftar sem hún er endurtekin. Fólk gerir það kannski ekki viljandi en sögur fara á dreif um samfélagið og hún getur enn verið lifandi eftir 20 ár. Hún tekur þó sérstaklega fram að slúður er ekki bundið við lítil samfélög, það sé slúðrað alls staðar en hefur kannski öðruvísi áhrif í minni hópum eins og litlum þorpum.

Hún segir: „Ég hef mjög oft fengið einkaskilaboð frá konum sem hafa upplifað eitthvað af því sem ég er að lýsa – mér finnst það merki um það að verkefnið sé þarft.“ og hún vill að almenningur njóti góðs af ásamt litlu samfélögunum líkt og Þórshöfn þar sem hún býr.

Sambíó

UMMÆLI