NTC

Slökkti á Facebook spjallinu til þess að fá frið til að drekka

Sveina Rún

Sveina Rún

Sveina Rún, 26 ára kona frá Vopnafirði, opnaði sig um áfengisvanda sinn í einlægum pistli á Facebook síðu sinni í gærkvöld. Segir Sveina að hún skrifi frásögnina aðallega fyrir sjálfa sig en að hún efist ekki um að einhverjir aðrir geti notið góðs af. Því fengum við á Kaffinu góðfúslegt leyfi Sveinu til að birta pistilinn með það fyrir augum að hann geti hjálpað öðrum í svipaðri stöðu.

Sveina Rún byrjaði að drekka áfengi ung. ,,Ég byrjaði að drekka þegar ég var 13, og gekk það bara ágætlega í einhver ár, ég byrjaði að missa tökin ca 19 ára gömul, þá bættist við margar aðrar tegundir af vímuefnum og gat ég notað meðvirkni bróður míns, til þess að fjármagna það.“

Um 2 árum síðar varð Sveina svo ólétt og eignaðist son sinn árið 2012. ,,Svo sveif ég um á bleiku skýi þegar Bjarki minn kom í heiminn. Ég gat djammað af og til og í fyrsta sinn gerði ég engar gloríur á djamminu, en það var ekki lengi að breytast. Ég sá samt ekki að um einhvern vanda væri að ræða, ég taldi mér trú um að þetta væri allt í lagi því ég væri ekki að nota neitt ólöglegt, það væri svo ógeðslegt af móður að gera.

Fljótlega urðu djömmin þó fleiri og verri og ástandið versnaði. Sveina segir: ,,En að hætta drekka? Nei, alls ekki. Ég ákvað bara að hætta að djamma, það var ca 2014, og fékk ég mér þá bara 2-3 bjóra á kvöldin, þegar ég var ekki að vinna semsagt.
Svo fór ég í aðra vinnu þar sem ég vann 14.00-20.00, hversu mikill lúxus fyrir byttu? En ég drakk aldrei fyrr en stubburinn minn sofnaði, þannig þetta var allt í lagi. Í ca 10 mánuði þá drakk ég að minnsta kosti 8 bjóra á kvöldin, minnsta kosti. Alla daga var ég að drepast úr pirringi og þynnku, stundum tók það mig 1 tíma að ná einum bjór niður því ég ældi svo mikið, en lykilatriðið var að gefast ekki upp, maður komst yfir það og þá rann bjórinn ljúft niður.“

Með aukinni drykkju fór fólkið í kringum Sveinu að hafa áhyggjur af ástandinu. ,,En svo þegar allir voru farnir að ræða við mann, að maður væri nú kannski að missa tökin, og mínir nánustu farnir að skoða í dósapokann minn, þá fann maður bara lausnir, ég fór bara að geyma alla bjórana inní fataskáp og þvottahúsi, en hafði alltaf einn inní ískáp, drakk hann og svo bætti ég í. Þannig að alltaf var þessi ,,sami“ bjór til og ég ægilega áhugalaus um hann. Svo var ég alltaf svo ,,þreytt“ á kvöldin, þannig ég gat aldrei fengið fólk í heimsókn, ég slökkti öll ljós, dró fyrir gardínur og setti mig offline á spjallinu á Facebook til að fá frið. Öll þessi fyrirhöfn, bara til þess að sitja ein og drekka mig til dauða, öll kvöld.“

Þá kynntist Sveina kærasta sínum sem var líka virkur alkóhólisti og hugsaði: ,,Djöfull sem það var næs að vera með manni sem setti ekkert útá mína drykkju. Nema hvað, hann eyðilagði allt með því að segjast ætla í meðferð, ég man að ég hugsaði: djöfullinn, þarf ég þá að fara taka tillit til hans“ Þetta vakti Sveinu þó til umhugsunar og sá hún fram á að velja á milli þess að missa kærastann og eyðileggja líf sonar síns eða einfaldlega mæta á AA-fund og fara að gera eitthvað í sínum málum. Sveina ákvað að leita sér hjálpar og hefur verið edrú í 9 mánuði og er ólétt af sínu öðru barni.

,,Ég hef notað næstum allar afsakanir í heimi og prufað allskonar aðferðir, en aldrei gat ég drukkið eins og venjulegt fólk.  Ég verð alltaf snargeðveik en ég læri að lifa með því og þar af leiðandi átt allt það besta í lífinu. Mig grunaði aldrei, þrátt fyrir augljóslega byttu hegðun, að ég þyrfti hjálp, en eg þarf þess og mitt markmið núna, er að vinna á þessum fordómum og skömm.

Hér má sjá pistil Sveinu í heild sinni:

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó