Sláandi frásagnir á #metoo viðburði í Samkomuhúsinu

#metoo baráttan hefur varla farið framhjá neinum um þessar mundir en byltingin hefur farið sem eldur í sinu út um allan heim. Þar deila konur sögum af kynferðislegri áreitni og ofbeldi sem þær hafa orðið fyrir í starfi og lífinu almennt, en engin starfsstétt virðist vera undanskilin.
Sérstakur #metoo viðburður var haldinn í Samkomuhúsinu sunnudaginn 10. desember þar sem fjölbreyttur hópur kvenna úr atvinnulífinu fyrir norðan kom saman og las frásagnir sem konur á Íslandi hafa birt á samfélagsmiðlum í #metoo baráttunni. Samskonar viðburðir voru einnig haldnir í Borgarleikhúsinu í Reykjavík og Herðubreið á Seyðisfirði.

#metoo byrjaði í Hollywood
Undanfarið hefur verið ákveðin uppreisn í leikarasamfélaginu vestanhafs, þar sem leikkonur og leikarar stíga fram hvert á fætur öðru með frásagnir af kynferðislegu ofbeldi og áreitni í bransanum. Í kjölfarið fór heimurinn allur að taka í sama streng og opinbera það áreiti sem konur hafa orðið fyrir í sínu nærsamfélagi. Á sunnudaginn var alþjóðadagur mannréttinda og einnig lokadagur sextán daga átaks Sameinuðu þjóðanna gegn kynbundnu ofbeldi. Þ.a.l. þótti þessi dagur vel til þess fallinn að halda viðburð sem þennan.

Saga Jónsdóttir, leikkona, var ein af þeim 17 konum sem lásu á viðburðinum. Mynd: Björn Jónsson.

Ótrúlegar frásagnir í flottum flutningi
Það er óhætt að segja að konurnar, sem voru 17 talsins, hafi flutt frásagnirnar óaðfinnanlega og samstaða og vitundarvakning viðstaddra styrktist með hverri frásögn. Sögurnar voru frá konum úr hinum ýmsu starfsstéttum víðsvegar af landinu; í kvikmyndagerð, stjórnmálum, fjölmiðlum, íþróttum, tónlist, tækni- og hugbúnaðariðnaði, verkalýðshreyfingunni, vísindum og réttargæslu. Þær sem fluttu sátu allar saman í röð þegar gestir gengu inn í sal og gengu síðan fremst á sviðið til skiptis og lásu sína frásögn. Á meðan á hverjum flutningi stóð þá risu konurnar, ein til tvær og stundum fleiri, úr sætum sínum fyrir aftan til stuðnings þeirri er sagði söguna. Meðal þeirra sem lásu frásagnirnar voru þær Sunna Borg, Hilda Jana, Ásta Sighvats, Elma Eysteinsdóttir, Soffía Gísladóttir, Auður Ingólfsdóttir, Jenný Lára Arnórsdóttir, Saga Jónsdóttir, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir ofl.

,,Við mjólkum bara Gunnu”
Frásagnirnar voru allar sláandi og það versta var að enginn véfengdi þær, því allar konur á Íslandi og víða um heim virðast hafa svipaðar sögur að segja. Frásagnirnar voru flestar úr atvinnulífinu og lýstu kynferðislegri áreitni og áreiti sem konur hafa þurft að þola í starfi.

„Þú þarft a.m.k. að létta þig um 20kg“
„Þú ert algjör hóra… grín“
„Ég vildi bara tékka hver væri með þennan rass“
„Hvernig vogaru þér að vera svona afhjúpandi og kveikja í mér?“
„Kannski var það bara gott að þér var nauðgað, þú ert búin að grennast svo mikið.“

Sagt um nauðgun: „Þið viljið þetta allar“
Meðan hann káfaði á mér:„Mikið hefur þú verið falleg, ung stúlka.“
Mjólkin var búin á kaffistofunni: „Við mjólkum bara Gunnu“

Baráttunni hvergi nærri lokið
Það er ennþá langt í land í baráttunni en þó hefur umræðan opnast gríðarlega undanfarnar vikur í kjölfar byltingarinnar og alltaf bætast í hópinn fleiri starfstéttir sem hafa sínar sögur að segja. Viðburðurinn endaði á jákvæðri frásögn frá konu sem lýsti því þegar samstarfsmaður hennar áreitti hana á skemmtistað og hún lét yfirmenn sína strax vita og nú er málið í ferli. Konan sagði þetta tvímælalaust vera #metoo byltingunni að þakka að svona hefði verið tekið á málinu og í stað þess að finna til skammar, sem hún hefði líklega fundið fyrir ári síðan, hefði hún hreinlega bara hlegið að tímasetningu mannsins sem áreitti hana. ,,Mér leið bara eins og valkyrju, með heilan her á bakvið mig.” Og með því köstuðu upplesarar blöðum sínum upp í loft og gengu af sviðinu við mikið lófatak viðstaddra.

Greinin birtist upphaflega í fyrsta tölublaði Norðurlands 14. desember.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó