Gústaf Baldvinsson framkvæmdastjóri Seagold Ltd., sem er sölufélag Samherja í Bretlandi, skrifar hér um skemmtilegt og gefandi samstarf við Dag Benediktsson sem í síðasta mánuði náði þeim frábæra árangri að verða fimmfaldur Íslandsmeistari á skíðum.
Dagur Benediktsson kom að máli við mig árið 2018 og óskaði eftir samtali. Ég kannaðist lítillega við drenginn þar sem hann er Ísfirðingur en þangað á ég mikil tengsl. Við settumst niður og Dagur falaðist eftir styrk frá fyrirtæki okkar í Englandi Seagold Ltd., til þess að verða frambærilegur keppnismaður á gönguskíðum. Hann kynnti fyrir mér ákveðnar hugmyndir um það hvað hann þyrfti að gera til að ná því markmiði. Í stuttu máli ætlaði hann að helga sig skíðagöngunni næstu árin.
Ákveðinn og metnaðarfullur
Dagur lagði fyrir mig langtíma áætlun sem ég verð að viðurkenna að mér fannst djörf en hún sýndi hve ákveðinn hann var og metnaðarfullur. Við hjá Seagold ákváðum að ganga til liðs við Dag með því að styðja hann og óskaði ég eftir því að hann sendi mér reglulega æfingaáætlanir, upplýsingar um gengi í mótum og fl.
Síðastliðin 5 ár hefur Dagur gert þetta af mikilli samviskusemi og skýrt okkur hjá Seagold ítarlega frá því hvernig honum hefur gengið að ná settu marki. Það má því segja að við höfum fengið að taka þátt í að sjá skíðagarpinn Dag þroskast og dafna.
Í liði með fimmföldum Íslandsmeistara
Íslandsmótið í skíðagöngu var haldið í ár á Ísafirði þar sem Dagur var mættur enn eina ferðina og hann gerði sér lítið fyrir og varð í fyrsta sæti í öllum greinum og þar með fimmfaldur Íslandsmeistari!
Það er afar gefandi að vera í þeirri stöðu að geta hjálpað ungu fólki við að ná sínum markmiðum.
Í íþróttum gildir það sama og í sjávarútveginum:
Árangur næst ekki nema með því að leggja hart að sér, hafa skýr markmið og þrautseigju til þess að fylgja þeim eftir. Seagold er í liði með fimmföldum Íslandsmeistara ! Hafðu kærar þakkir fyrir frábært og gefandi samstarf, Dagur Benediktsson. Framtíðin er þín.
Gústaf Baldvinsson.
- Seagold Ltd. er sölufélag Samherja í Bretlandi sem var stofnað 1996 og hefur Gústaf Baldvinsson verið framkvæmdastjóri þess frá upphafi.
Grein og myndir: Samherji.is
UMMÆLI