NTC

Skrifað undir samning um rekstur á kaffihúsi í Listagilinu

 

Á dögunum var skrifað undir samning milli Listasafnsins á Akureyri og hjónanna Mörtu Rúnar Þórðardóttur og Ágústs Más Sigurðssonar, eigenda Þrúgur ehf., um rekstur kaffihúss í Listasafninu, en nú standa yfir miklar framkvæmdir á húsnæði safnsins. Eftir endurbætur og stækkun verða byggingarnar tvær sem Listasafnið hefur haft til umráða, annars vegar gamla Mjólkursamlag KEA og hins vegar Ketilhúsið, sameinaðar með tengibyggingu og munu þá mynda eina heild. Glæsilegir sýningasalir verða opnaðir í sumar á sama tíma og kaffihúsið, sem mun bera nafnið Gil.

Þrír aðilar sóttu um reksturinn og lögðu tillögur sínar fyrir fimm manna dómnefnd sem skipuð var Almari Alfreðssyni, verkefnastjóra menningarmála, Guðríði Friðriksdóttur, sviðsstjóra Umhverfis- og mannvirkjasviðs, Hildi Friðriksdóttur úr stjórn Akureyrarstofu, Hlyni Hallssyni, safnstjóra Listasafnsins, og Leifi Hjörleifssyni sem er óháður aðili.

Í umsögn dómnefndar um tillögu Mörtu Rúnar og Ágústs Más segir meðal annars: „Hugmyndin er metnaðarfull, vel ígrunduð og fellur vel að ásýnd Listasafnsins. Framúrskarandi sérþekking á kaffi og góð reynsla af daglegum rekstri kaffihúsa. Hugmyndir um samstarf við Listasafnið varðandi viðburði og opnunartíma allt árið um kring eru áhugaverðar og skapa sérstöðu.“

„Við ætlum okkur að mynda notalega stemningu á kaffihúsinu og leggja áherslu á hollar veitingar með fyrsta flokks hráefni,“ segir Marta Rún Þórðardóttir, annar eigenda Gils. „Boðið verður upp á fjölbreytt úrval kaffidrykkja úr fyrsta flokks kaffibaunum frá Reykjavík Roasters. Gil verður þar með eini staðurinn á Norðurlandi sem býður upp á þessa kaffitegund sem vakið hefur mikla lukku í Reykjavík. Við stefnum á að opna kl. 8 á morgnana með léttum morgunverði og ætlum okkur jafnframt að nýta útisvalir Listasafnsins undir veitingaaðstöðu og uppákomur þegar aðstæður leyfa. Við hlökkum mikið til að taka þátt í fjölbreyttu menningarstarfi Listagilsins og teljum möguleikana mikla,“ segir Marta Rún.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó