Sem ungur drengur fann hann byssukúlur í gömlum ruslahaug frá stríðsárunum. Áhugi hans á seinni heimsstyrjöldinni var vakinn. Á rúmum fjórum áratugum sem liðnir eru hefur Sigfús Tryggvi Blumenstein komið sér upp einu því stærsta og merkilegasta stríðsminjasafni sem til er í einkaeigu á Íslandi. Í fyrstu safnaði hann öllu sem snéri að heimsstyrjöldinni en hefur hin seinni ár einbeitt sér að stríðsminjum sem tengjast Íslandi. Markmið Tryggva er að gripirnir komist á endanum á safn, almenningi til fræðslu og skemmtunar.
Sennilega eru þeir ekki margir núlifandi Íslendingar sem eru jafnfróðir og Tryggvi um þann útbúnað sem setuliðið notaðist við hér á landi á stríðsárunum. Skotfæri eru stór hluti af þeim útbúnaði og finnast alltaf annað slagið skothylki (patrónur) eftir þá á víðavangi. Ekki er víst að allir átti sig á því að á enda skothylkjanna má greina nokkurs konar stimpla. Þeir kunna að virka sem dulmál á meðaljóninn en þegar betur er að gáð, gefa þeir upplýsingar um gerð patrónunnar, framleiðsluland, framleiðsluár o.s.frv. Á annað þúsund skothylkja hið minnsta og blýkúlna af ýmsum stærðum og gerðum hafa fundist í Hlíðarfjalli undanfarin ár. Tryggvi rýndi í nokkur sýnishorn frá Hlíðarfjalli á dögunum.
Mikill áhugi á skotfærasöfnun
Tryggvi, sem hefur umtalsverða reynslu þegar kemur að því að greina upplýsingar á skothylkjum úr seinni heimsstyrjöldinni, segir skotfærasöfnun vel þekkt fyrirbrigði. Margir safni mismunandi stimplum af skothylkjum þar sem ólík skothylki gangi kaupum og sölum á netinu. Hann segir skotfærasöfnun vera heim út af fyrir sig og að áhugi erlendis sé gríðarlegur.
Gaman að spá í stimplana
Bandaríkjamenn sem gegndu herþjónustu hér notuðu 45 kalibera skammbyssur. Norðmenn gerðu það einnig eftir að hafa fengið leyfi hjá framleiðandanum Colt. Tryggvi kemur auga á 45 kalibera skothylki úr Hlíðarfjalli sem við fyrstu sýn er ómögulegt að sjá hvort sé frá Bandaríkjamönnum eða Norðmönnum. „Þessi hylki sem eru 45 kalibera, þau bera ekki þessa venjulegu herstimpla. Það styrkir mig í þeirri trú að þetta sé frá norsku herdeildinni því ég held að Ameríkaninn hafi ekki verið með þessa stimpla á sínum 45. Það er þá spurning hvort þeir hafi verið að kaupa þetta sjálfir. Þetta er útlagastjórn í Bretlandi. Hvort að þeir séu að kaupa þetta eða breska ríkisstjórnin fyrir þá. Ég myndi ekki halda að ameríski herinn hafi notað þessi. Það er nefnilega oft gaman að spá í þessa stimpla á skothylkjunum.“
Skot í Hlíðarfjalli frá árinu 1926
Herskot eru framleidd í gríðarlegu magni og því mikið til af því sama. Sum skotfæri eru þó sjaldgæfari en önnur t.d. vegna aldurs. „Eins og við sáum hérna áðan, þá var eitt frá árinu 1926. Þetta eru bara gamlar birgðir. Þegar þeir [setuliðsmennirnir] koma hingað fyrst þá eru þeir oft að nota elstu skotin. Þeir eru að nota þetta í æfingar og þess háttar. Kannski verið með nýrri skot í bardaga.“
Ekki algengt að heil skot finnist
Tryggvi segir það ekki algengt á Íslandi að heil skot finnist úti í náttúrunni eins og þau sem fundist hafa í Hlíðarfjalli, þó vissulega séu þess dæmi. Sjálfur hafi hann fundið heil skot en í þeim tilfellum hafi verið um svokölluð æfingaskot að ræða. „Þá er ekki púður í þeim og þau aðeins notuð til að æfa hleðslu. Þá eru þau oft krumpuð en það er kúla í þeim. Það getur verið hvellhetta en þarf ekki að vera og það er hægt að taka í gikkinn en ekkert gerist.“
Hér má heyra lítið hljóðbrot þar sem Tryggvi rýnir í gamla patrónu sem fannst í Hlíðarfjalli.
Tryggvi kemur við sögu í nýjum hlaðvarpsþætti í þáttaröðinni Leyndardómar Hlíðarfjalls sem fer í loftið í nóvember. Tryggvi er til hægri á myndinni ásamt þáttastjórnandanum Brynjari Karli.
UMMÆLI