NTC

Skora á ríkisstjórn að tryggja áframhaldandi rekstur göngudeildar SÁÁ á Akureyri

Á fundi bæjarráðs Akureyrar var fjallað um stöðuna í rekstri göngudeildar SÁÁ á Akureyri. En eins og fram hefur komið í fréttum þá hefur framkvæmdastjórn SÁÁ samþykkt að hefja undirbúning að lokun deildarinnar þar sem engin framlög hafa komið frá ríkinu til reksturs hennar síðustu þrjú ár. Að óbreyttu verður deildinni lokað vegna skorts á fjármagni.

Í fundargerð bæjarráðs segir:

Bæjarráð leggur mikla áherslu á að framhald verði á göngudeildarþjónustu fyrir ávana- og fíkniefnasjúklinga á Akureyri sem tryggir þjónustu við íbúa á Norðurlandi. Bæjarráð skorar á ríkisstjórn og Alþingi að tryggja nauðsynlega þjónustu og nægjanlega fjármuni til að standa undir henni.

Guðmundur Baldvin Guðmundsson er formaður bæjarráðs og segir í samtali við Vísi að ljóst sé að ef ekki komi til frekara fjármagn frá ríkinu þá stefni í lokun um næstu áramót. „Við munum að sjálfsögðu þrýsta á ríkisstjórn og Alþingi að tryggja fjármuni að að halda úti göngudeildarþjónustu á Akureyri.“

Guðmundur kveðst hafa fulla trú á því að með sameiginlegu átaki ríkis og bæjar takist að tryggja áframhaldandi þjónustu fyrir ávana- og fíkniefnasjúklinga.

Sambíó

UMMÆLI