Framsókn

Sköpun bernskunnar 2020 opnuð á laugardaginn

Sköpun bernskunnar 2020 opnuð á laugardaginn

Laugardaginn 7. mars kl. 15 verður samsýningin Sköpun bernskunnar 2020 opnuð í Listasafninu á Akureyri. Þetta er sjöunda sýningin undir heitinu Sköpun bernskunnar. Hún er sett upp sem liður í safnfræðslunni, með það markmið að gera sýnilegt, og örva, skapandi starf barna á aldrinum fimm til sextán ára.

Þátttakendur hverju sinni eru börn og starfandi myndlistarmenn, oftast einn karl og ein kona. Þátttakendurnir vinna verk sem falla að þema sýningarinnar, sem að þessu sinni er hús, heimili, skjól, með áherslu á hamfarahlýnun af mannavöldum og áhrif hennar á búsetuskilyrði. Einnig verða til sýnis líkön af íslenskum neyðarskýlum sem kanadísku listamennirnir Natalie Lavoie og Steve Nicoll bjuggu til og sýndu, þegar þau dvöldu í gestavinnustofu Gilfélagsins í nóvember 2018.

Í ár koma fimm ára leikskólabörn, þrjátíu og fjögur talsins í tveimur hópum, á Listasafnið á Akureyri og vinna myndverk undir leiðsögn tveggja starfandi myndlistarkvenna, Jonnu – Jónborgar Sigurðardóttur og Gunnhildar Helgadóttur, en sú síðarnefnda er annar tveggja myndlistarmanna sem eiga verk á sýningunni. Aðrir þátttakendur eru Hrafnkell Sigurðsson myndlistarmaður, Brekkuskóli, Lundarskóli og Naustaskóli ásamt leikskólanum Hólmasól.

Sýningarstjóri er Guðrún Pálína Guðmundsdóttir.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó