Eftirfarandi viðtal við Kristbjörgu Jónatansdóttur, kennsluskonu á Akureyri, birtist í tveimur tölublöðum Dags í september árið 1935 undir heitinu Kennaramótið í Stokkhólmi. Viðtal við Kristbörgu Jónatansdóttur kennslukonu.
Kristbjörg Jónatansdóttir kennslukona við barnaskóla Akureyrar er nýlega heim komin af norræna kennaramótinu, sem haldið var í Stokkhólmi dagana 6. — 9. ágúst sl. [1935] Dagur sneri sér til Kristbjargar og bað hana að segja sér hið helzta af förinni og kennaramótinu. Varð hún vel við þeirri málaleitun.
Hvernig gekk ferðin yfirleitt?
Ágætlega. Sólin hló við okkur frá heiðum himni, vindarnir voru í felum og Ægis dætur stigu léttfættan dans og hjöluðu við skip okkar á leiðinni yfir hafið. Aðeins einn dag hossuðu þær okkur full hátt, en þá vorum við orðin svo vön leik þeirra, að við tókum okkur það ekki nærri. Ég var mjög heppin með ferðafélaga, enda snúa menn sjaldan út á sér ranghverfunni, þegar veðrið leikur við mann, eins og það gerði við okkur.
Hve margir tóku þátt í mótinu og frá hvaða löndum?
Talið var að á mótinu hefðu verið saman komnir milli 5 og 6 þúsund kennarar. Yoru þeir frá Norðurlöndunum 5 og auk þess einhverjir fulltrúar frá Eystrasaltslöndunum 3, Estlandi, Lettlandi og Lithaugalandi. Auðvitað voru Svíarnir þarna lang fjölmennastir.
Hvað voru margir íslenzkir kennarar á mótinu?
Við íslenzku kennararnir vorum víst eitthvað um 30.
Fenguð þið, íslensku kennararnir, dálítinn ferðastyrk frá ríkinu?
Já. Síðasta Alþingi veitti kennurum 5000 kr. ferðastyrk, sem fræðslumálastjórnin skifti svo á milli þeirra, er um það sóttu. Flestir fengu 200 kr. styrk.
Viðtökurnar munu hafa verið góðar, því Svíar eru sagðir mjög gestrisnir?
Já, viðtökurnar voru ágætar, en það var nú ekki allt Svíunum að þakka. Fræðslumálastjórnin okkar hafði kosið 5 af íslenzku kennurunum í einskonar forstöðunefnd, eins og tíðkast á slíkum mótum, og tilkynnt móttökunefnd Svíanna, hve margir íslenzkir kennarar óskuðu eftir bústað í borginni, á meðan á mótinu stæði. Við, sem fórum yfir Danmörku, fórum held ég öll sunnudaginn 4. ágúst yfir til Svíþjóðar og var forstöðunefndinni kunnugt um það. Og það var ekki eingöngu tekið á móti okkur tveim höndum heldur mörgum höndum, þegar við komum á járnbrautarstöðina um kvöldið. Þegar lokið var tollskoðun og öðrum athugunum, sem nauðsynlegar þykja á þeim stöðum, var okkur ekið heim á Pensionat Windsor, Skepparegatan 32, þar sem flestir Íslendingarnir bjuggu á meðan þeir dvöldu í Stokkhólmi. Þarna var eins og ofurlítil Íslendinga nýlenda þessa daga, þarna héldu Íslendingarnir einkafundi sína og réðu ráðum sínum, þetta var á ágætum stað í borginni, og þar fór prýðilega um okkur, og svo var það líka fremur ódýrt, og ekki veitti nú af að halda í aurana, því ekki hafði útflutnings- og gjaldeyrisnefnd verið örlát á erlenda gjaldeyrinn við okkur, þegar við vorum að hefja förina.
Var ekki þröngt um húsnæði fyrir allan þennan aðkomumannafjölda?
Aldrei urðum við neitt vör við þrengsli í borginni, hvorki úti né inni, nema morguninn, sem mótið var sett, og að kvöldi þess sama dags, er Stokkhólmsbær hafði móttökuhátíð fyrir kennarana í Stadshuset, einhverju fegursta samkomuhúsi á Norðurlöndum, og máske þó víðar sé leitað. Þangað komst ekki nema lítill hluti aðkomukennaranna, enda ekki fleirum boðið. En Íslendingarnir voru allir í því boði. (Það er ekki alltaf verst að vera minstur).
Hvernig hófst mótið?
Mótið hófst þriðjud. 6. ágúst, kl. 10 árdegis á hátíðlegri samkomu í Blasieholms kirkjunni. Í því húsi er talið að mæzt geti flestir menn undir einu og sama þaki í Stokkhólmsborg, og þó er þar í mesta lagi hægt að troða inn 4000 manns. Margir urðu því frá að hverfa við dyrnar, og þótti þeim, sem að líkindum lætur, súrt í broti að hafa komið svo langa vegu, en fá svo ekki að sjá neitt af dýrðinni. Nokkur bót var það í máli, að athöfninni allri var útvarpað, og hátölurum mörgum fyrir komið í húsi því, er skólasýningin var í. Þangað fóru margir af þeim, sem útilokaðir voru. Í kirkjunni hófst samkoman á hljómleikum. Þá talaði fyrstur formaður skólamótsnefndarinnar sænsku B. J:son Bergqvist. Bauð hann gestina velkomna með ræðu. Þá voru hljómleikar aftur. Að því búnu talaði kennslumálaráðherra Svía og svo hver af öðrum, einn fulltrúi fyrir hvert land, sem gesti átti á fundinum. Á eftir hverri ræðu var jafnan sunginn og leikinn þjóðsöngur þess lands, er ræðumanninn átti. Að endingu voru svo hljómleikar. Öll athöfnin stóð yfir um 2 klukkustundir.
Hverjir töluðu af hendi Íslendinga?
Af hendi Íslendinga talaði þarna Arngrímur Kristjánsson kennari í Rvík, núverandi formaður S. í. B. Á lokahátíðinni talaði Guðjón Guðjónsson, skólastjóri í Hafnarfirði, og erindi á fundinum fluttu þeir Guðjón Guðjónsson, er mælti á sænska tungu og Sigurður Einarsson, kennari við Kennaraskóla Íslands. Hann talaði á dönsku.
Hvernig rómur var gerður að máli Íslendinganna?
Ekki var Ég annars vör en gott þætti að heyra til Íslendinganna, enda fannst mér þeir koma þarna fram sjálfum sér og okkur öllum Íslendingunum til sóma, og Ég held mér sé óhætt að fullyrða, að sama hafi verið álit hinna landa minna, sem þarna voru. Erindi Sigurðar Einarssonar var útvarpað, en til þess var jafnan valið eitt erindi á dag. Mér er kunnugt um, að sama dag og Sigurður flutti erindið, var hann beðinn um það til birtingar, og bendir það til, að eigi hafi þótt alllítið til þess koma. Erindið fjallaði um íslenzkt uppeldi að fornu og nýju. Guðjón Guðjónsson talaði aftur um íslenzka vinnuskólanm.
Hvað er að segja um fyrirkomulagið?
Að lokinni setningu mótsins hófust fyrirlestrar kl. 2 s.d. þennan fyrsta dag, en hina 2 dagana hófust þeir kl. 9 árdegis. Fyrirlestrarnir voru fluttir á 6, og stundum 7 stöðum samtímis, um ólík efni. Sumir fyrirlestrarnir voru fluttir með það fyrir augum, að umræður yrðu á eftir. En jafnvel þó svo væri ekki ráð fyrir gert, var leyfilegt að hafa umræður, ef þess var óskað og fundarstjóri áleit tíma til vera. AIls voru haldnir um 60 fyrirlestrar. Í tilhögunarskrá mótsins var skrá yfir öll erindin, og varð því hver og einn að gera það upp við sjálfan sig á hvað eða hvern hann helzt vildi hlusta í hvert sinn. Erindi áttu að jafnaði ekki að vera lengur en hálfa stund, jafnvel þó ekki væri ætlast til að umræður færu fram á eftir.
Aðalefni erinda og umræða hefir vitanlega verið skóla- og uppeldismál. Var ekki svo?
Jú auðvitað, en frá ýmsum hliðum og sjónarmiðum. Þau snerust um kennslufyrirkomulag og kennsluaðferðir í flestum námsgreinum allt neðan frá smábarnaskólanum og upp til sambandsins milli barnaskólanna og hinna æðri skóla, um heilsuvernd, líkamlega og sálarlega, um bókasöfn, um blöðin og skólana, um útvarp og skóla, um borgaralegar skyldur og ábyrgð þjóða á milli, um uppeldi kennara, um próf o.s.frv. o.s.frv.
Voru nokkur ferðalög í sambandi við kennaramótið?
Já, nokkur. Annan dag mótsins stóðu fyrirlestrar aðeins til hádegis. Síðari hluti dagsins var mönnum ætlaður til ferðalaga. Var það sænska ferðamannafélagið, sem hafði stofnað til þeirra og sá um fyrirkomulag á þeim. Var um 4 ferðir að ræða. 1. Til Uppsala og Gamla Uppsala. Þangað gátu komist mest 800 manns. 2. Til Sigtuna, 175 manns, en gert ráð fyrir 2 hópum. 3. Til Mariefred og Gripsholmhallar, 300 manns. 4. Að skoða hið markverðasta í Stokkhólmsborg og umhverfi, 300 manns. Ferðir þessar kostuðu 6 kr. á mann (7 til Uppsala), og var í því innifalinn sameiginlegur miðdegisverður fyrir þátttakendur. Ennfremur voru menn til að leiðbeina og skýra það, sem skoðað var. Mönnum var skipt í hópa, og hafði hver hópur sinn leiðsögumann. Auk þess var fargjald á járnbrautum sænska ríkisins lækkað um 25 prc. fyrir kennarana frá 1. til 17. ágúst hvar í landinu, sem þeir vildu ferðast. Vissi ég að margir notuðu sér það og ferðuðust eitthvað að mótinu loknu, Íslendingarnir ekki síður en aðrir. Ef einhver Frónbúi var spurður hvenær hann ætlaði heim, var svarið venjulega á þessa leið: Ja, ég veit það nú ekki. Ég fer ekki fyr en ég má til, ég verð hér í landinu á meðan peningarnir endast.
Var ekki skólasýning í sambandi við kennaramótið? Hvað er um hana að segja?
Jú, skólasýningin var í sambandi við mótið. Um hana er svo margt að segja, að um hana mætti skrifa heila stóra bók. Um hana er það fyrst og fremst að segja, að enginn tími vannst til að skoða hana, nema að mjög litlu leyti. Hún var opin einungis 4 daga, dagana 3, sem mótið stóð og næsta dag á eftir. Sá ég eftir, að menn skyldu ekki geta betur notið allrar þeirrar miklu vinnu, sem í þá sýningu var lögð. Sýningin var í 80 herbergjum, á 5 hæðum, í einum barnaskóla borgarinnar. Þar var sýnishorn af allri handavinnu, sem kennd er í skólum Svíþjóðar, í barna- og unglinga-, gagnfræða- og hússtjórnar- og kennaraskólum, blindrask., heyrnar og málleysingjask. o.s.frv., reikningar og vinnubækur, allskonar. Sérskólar eins og t.d. Nääs-skólinn hafði þarna sýnishorn af sinni handavinnu frá 1870—1935. Þarna var læknisskoðunarstofa, tannlækningastofa, fyrirmyndir af skólabyggingum, skólaborð og öll hugsanleg kennslutæki í öllum námsgreinum, bókasöfn, útvarpstæki, kvikmynda- og skuggamyndavélar og saumavélar og sýning á notkun ýmsra þessara tækja, allt í sambandi við kennslu í skólum.
Hvern telurðu helzta ávinning kennaramótsins og hver er varanlegasta endurminning þess?
Ávinningur kennaramótsins er, auðvitað mikill og margháttaður, og sjálfsagt nokkuð sérstakur fyrir hvern einstaklinginn. Fyrst og fremst má nú telja sjálft ferðalagið. Leiðin frá Íslandi til Stokkhólms er æði löng, og þangað er venjulega farið bæði á skipum og járnbrautum. Á slíkri ferð ber því margt nýstárlegt fyrir augu og eyru Íslendingsins. Breytt umhverfi, ólík tungumál, nýir siðir, sem hann verður að laga sig eftir og tileinka sér, svo hann verði ekki eins og álfur út úr hól. Allt þetta þjálfar og þroskar margvíslega. En svo er ferðalagið öðrum þræði hvíld og nautn. Ef þú hefir undirbúið ferð þína réttilega, þá er séð fyrir öllum þínum þörfum, þú getur verið áhyggjulaus. Þú getur legið í rúmi þínu í skipinu og sofið, látið þig dreyma, lesið eða masað við félaga þinn. Skipið ber þig áfram til ókunna landsins þrátt fyrir það. Þú getur setið við gluggann í járnbrautarvagninum og horft á hinar óteljandi lifandi myndir, sem bera fyrir augu þín, notið fegurðarinnar og dásamað skaparann, og á meðan þýtur eimvagninn óðfluga með þig í áttina til borgarinnar. Þú ert staddur í dimmum jarðgöngum, en áður en þú færð áttað þig á, hve ægilegt myrkrið er, ertu kominn út á sólbjarta völlu við spegilslétt, beiðblátt fjallavatn, og skógurinn kinkar til þín kollinum úr hlíðinni hinum megin. Og áður en þú hefir fengið tíma til að dást að allri þessari fegurð, hefirðu borist út á brúna stóru, sem liggur yfir fljótið, sem freyðir úr vatninu og flýtir för sinni í faðm sjávarins, en handan við fljótið eygir þú grænt engi, og þar liggja Skrauta, Rauðka, Skjalda og hún Surtla og jórtra alveg eins og kýrnar heima á Íslandi. Og þarna er þá húsið bóndans og nú koma börnin hans hlaupandi, veifa og brosa til þín alveg eins og börnin í skólanum þínum heima. Og þó vita þau ekkert hver þú ert. Þú ert bara þar sem þau vildu vera komin, í vagninum, sem ber þig eitthvað út í blánn. — Já, þetta voru aðeins örfáar af þeim margvíslegu myndum, sem fyrir bera á ferðalaginu. Og þá er nú stórborgin með öllum sínum ys og þys, skrölti og skarkala, ljósum, mannfjölda, götum og byggingum, trjám og blómskrúði. Og við kynnumst nýjum mönnum, nýjum hugmyndum, eignumst nýja vini. Og við sitjum við fætur fræðimannanna og nemum nýja speki, fáum nýtt viðhorf, sjáum í nýju ljósi. Allt þetta auðgar andann á ýmsan hátt. Skólasýningin mikla var auðvitað lang fljótteknasta leiðin til að kynnast skólafyrirkomulagi Svía og kennsluaðferðum, en jafnvel þótt tíminn til að skoða sýninguna væri svona stuttur (eða máske að það hafi líka verið vegna þess að hann var svona stuttur) þóttist ég þó ganga úr skugga um það, eins og mér reyndar alltaf hefir fundist ég gera á utanlandsferðum mínum, að Íslendingar standa frændum sínum á Norðurlöndum furðu lítið á baki, þegar öllu er á botninn hvolft, meira að segja í skólamálum. Ég sá t.d. ekkert þarna á sýningunni, sem kom mér á óvart eða ég hafði ekki heyrt getið um áður, og flest af því, sem þarna var sýnt, hefir verið reynt í íslenzkum skólum. Munurinn er aðallega sá, að kennslutækin eru margfallt betri og fullkomnari, en það er ekki af því að íslenzkir kennarar viti ekki að þessi tæki eru til, að þau eru ekki notuð í íslenzkum skólum, heldur vantar peninga til að fá þau þangað. Og ég efast um að nokkrir kennarar hafi gert eins mikið með litlum tækjum eins og einmitt íslenzku kennararnir. Hverjar verði varanlegastar endurminningar mótsins, því er ekki svo gott að svara. Tíminn einn getur leitt það í Ijós. En sem stendur finnst mér það kannske hafa haft einna dýpst áhrif á mig, að sjá allar þessar mörgu þúsundir manna, komna frá svo margvíslegu umhverfi, svo ólíka að útliti og talandi ýms tungumál, en hafa þó svo að segja eina sál, eina leitandi sál, sem þráir að finna þær leiðir, sem farsælastar verði til göngu hinni uppvaxandi kynslóð Norðurlanda. Þrátt fyrir allan ytri mismun, skoðanamun og einstaklingseðli, hittast þó hugir allra þessara starfssystkina í einum miðdepli, í samúðinn í hvert með öðru og með ungviðinu, sem þeim er falið að gæta. Það er ylur frá þessum arni, sem við berum með okkur heim til vetrarstarfsins, það eru geislar frá því ljósi, sem lýsa inn í framtíðina og gefa okkur þá trú, að þrátt fyrir öll misstigin spor og sundurlyndi og öfugstreymi í lífi þjóðanna, þá muni þó hin komandi kynslóð eiga bjartari og farsælli daga í vændum, einmitt af því að við höfum lifað á undan henni og rutt henni braut. Það er tilfinningin fyrir þessu, sem mér finnst að muni vara lengst í endurminningunni um 14. norræna kennaramótið. — Að lokum þakkar Dagur kennslukonunni fyrir samtalið og hinar skýru og ánægjulegu upplýsingar um kennaramótið.
Þessi pistill birtist upphaflega á vef Grenndargralsins www.grenndargral.is.
UMMÆLI