Um þessar mundir er verið að skoða það að byggja tvö ný húsnæði fyrir Heilsugæsluna á Akureyri þar sem núverandi húsnæði Heilsugæslunnar þykir ekki fullnægjandi.
Heilsugæslan er nú til húsa í Amaro-húsinu við Hafnarstræti og margt sem er ekki að virka nógu vel samkvæmt niðurstöðum úr skýrslu HSN. Þá er aðeins ein lyfta í húsinu sem er komin á aldur en hún er það þröng að nútíma hjólastólar komast ekki inn í hana. Í húsinu eru gangar mjög þröngir og óhentugir fyrir sjúklinga sem heilsugæslustöðina sækja. Mjög takmarkaður fjöldi bílastæða er við húsnæðið og þau fáu stæði sem eru í boði eru flest klukkustæði og því aðeins takmarkaður tími fyrir sjúklinga.
Ekki er vitað hvar nýju heilsugæslustöðvarnar verða staðsettar eða hvenær fjármagn fæst fyrir þeim en unnið er hörðum höndum að því að fá fjárveitingu til verksins. Jón Helgi Björnsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Norðurlands, segir í samtali við Vikudag að þau telji góðan möguleika á því að fá fjárstyrk fyrir verkefninu þar sem að ekki margir staðir þurfi á nýjum heilsugæslustöðvum að halda og Akureyri því sennilega mjög ofarlega í forgangsröðinni. Hann segir að markmið þeirra sé að niðurstaða um hvort þetta geti orðið að veruleika liggi fyrir innan árs.
Ákvörðun um staðsetningu stöðvanna verður tekin með hliðsjón af núverandi dreifingu byggðar þannig að íbúafjöldi skiptist sem jafnast niður á hvora heilsugæslustöð fyrir sig. Staðsetning stöðvanna verður ákveðin í samstarfi við skipulagsyfirvöld á Akureyri en mikilvægt þykir að gott aðgengi verði fyrir umferð og bílastæði á báðum stöðum.
Í skýrslu HSN segir:
„Tvær heilsugæslustöðvar af þessari stærðargráðu mundu þjóna vel þeim fjölda íbúa sem er til staðar innan þjónustusvæðisins í dag, þó svo að hvor stöð gerði ekki ráð fyrir nema 8 læknum, sem er í samræmi við 1500 einstaklinga í samlagi. Reiknað er með tveimur læknastofum í viðbót á hvorri stöð fyrir lækna í sérnámsstöðum fyrir heimilislækningar og kandidata. Með þessu fyrirkomulagi munu þessar tvær stöðvar ráða við þá íbúafjölgun sem spáð er til ársins 2030. Jafnframt verð ur þjónustan persónulegri og nær íbú unum.“
UMMÆLI