NTC

Skipulagsráð tilkynnir tillögu að breytingu – Ekki fleiri en átta hæðirMynd: Akureyrarbær/akureyri.is

Skipulagsráð tilkynnir tillögu að breytingu – Ekki fleiri en átta hæðir

Skipulagsráð Akureyrarbæjar kynnir tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Akureyrar 2018-2030 sem nær til götureits sem afmarkast af Hjalteyrargötu í vestri, Kaldbaksgötu í austri, Gránufélagsgötu í norðri og Strandgötu í suðri. Lýsing aðalskipulagsbreytingarinnar var kynnt með auglýsingu sem birtist 16. október 2019 og var þá gert ráð fyrir að á reitnum mætti byggja allt að fimm 6 til 11 hæða fjölbýlishús með atvinnustarfsemi á neðstu hæð.

Gríðarlega hávær umræða hefur myndast vegna málsins þar sem ekki allir eru sammála um hvernig svæðinu skal hagað. Þá voru mjög margir sem mótmæltu því að svona há byggð stæði til á svæðinu.Umrætt svæði er í dag að mestu skilgreint sem athafnasvæði fyrir utan lítið svæði sem nær til núverandi einbýlishúsalóðar sem liggur að Strandgötu. Þá er svæðið hluti af stærra þróunarsvæði þar sem gert er ráð fyrir mikilli endurnýjun bygginga og að nýjar byggingar verði almennt 3 til 4 hæðir, með íbúðum á efri hæðum.

Leggja til að húsin verða ekki hærri en átta hæðir

Í þeirri tillögu sem nú er kynnt hefur verið sett það skilyrði að nýjar byggingar verði ekki hærri en 25 m.y.s. og að gólfkóti verði að lágmarki 2,2 m.y.s. Felur það í sér að heimilt verður að byggja hús sem verða 6 til 8 hæðir, allt eftir útfærslu. Áfram er gert ráð fyrir íbúðum á efri hæðum en á jarðhæð er sett skilyrði um að 25% rýmis að lágmarki, utan við bílgeymslu, verði fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi.

Gefinn er kostur á að skila inn athugasemdum eða ábendingum til 27. maí n.k. og skal þeim skilað skriflega til skipulagssviðs Akureyrarbæjar, Geislagötu 9, 3. hæð eða með tölvupósti (skipulagssvid@akureyri.is) þar sem nafn, kennitala og heimilisfang sendanda kemur fram. Frekari upplýsingar eru veittar á skipulagssviði Akureyrarbæjar, Geislagötu 9. 3. hæð.

Sambíó

UMMÆLI