NTC

Skiptir landbúnaðurinn Akureyrarbæ máli?

Skiptir landbúnaðurinn Akureyrarbæ máli?

Hilda Jana Gísladóttir skrifar

Dagur landbúnaðarins var haldinn hér á Akureyri þann 13. október síðastliðin, undir yfirskriftinni „Landbúnaður á krossgötum“. Málþingið var mjög áhugavert, en þar kom m.a. fram það sem flest eru þó meðvituð um að afkoma bænda sé slæm, þeir séu skuldsettir, vaxtaumhverfið erfitt  og ofan á þann veruleika bætist hátt aðfangaverð og verðbólga. Framkvæmdastjóri Bændasamtakanna gekk svo langt að segja að neyðarástand ríki. 

Sveitarstjórnir lýsa yfir áhyggjum

Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar hefur lýst yfir þungum áhyggjum af þeirri stöðu sem komin upp hjá bændum og bent á að rekstrargrundvöllur margra búa sé brostinn og það sé sveitarfélaginu ákaflega mikilvægt að matvælaframleiðslu sé skapaðar öruggar rekstraraðstæður enda sé hún aðalatvinnuvegur sveitarfélagsins. Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar hefur tekið í sama streng og hafa hvatt stjórnvöld til að bregðast strax við þeirri alvarlegu stöðu sem uppi sé í íslenskum landbúnaði. Byggðarráð Norðurþings hefur einnig lýst yfir þungum áhyggjum af stöðu bænda og íslensks landbúnaðar og bent á að landbúnaður sé stór atvinnugrein í sveitarfélaginu og að mikilvægt sé að matvælaframleiðslu séu skapaðar öruggar rekstraraðstæður. 

Hvað kemur þetta Akureyrbæ við?

Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs og óháðir óskuðu eftir umræðu í bæjarstjórn Akureyrarbæjar um landbúnaðarmál og stöðu bænda. En hvað kemur þetta Akureyrarbæ við? Er þetta ekki bara vandi sveitarfélaga þar sem bændur starfa?

Á Eyjafjarðarsvæðinu hefur matvælaframleiðsla lengi verið ein af mikilvægustu atvinnugreinunum og Akureyri verið þjónustumiðja þeirrar framleiðslu. Kúabú við Eyjafjörð framleiða um fimmtung af allri mjólkurframleiðslu á Íslandi sem fer til vinnslu hjá MS á Akureyri, en þar starfa um 80 manns. Í kjötvinnslu hjá Kjarnafæði/Norðlenska starfa líklega á bilinu 120-130 einstaklingar með lögheimili á Akureyri og hjá Bústólpa sem er m.a. í fóðurframleiðslu starfa 27 manns. Einnig væri hægt að nefna fyrirtæki eins og Lífland, Búvís, Aflvélar, Þór hf. og fleiri, en einnig fjölmörg fyrirtæki sem treysta á verslun og þjónustu við bændur og fyrirtæki í landbúnaði. 

Framkvæmdastjóri Bústólpa benti nýverið á í grein sinni á að „Ef við tökum bara fyrirtækin hér á Akureyri, mjólkursamlagið, kjötvinnslurnar og fóðurframleiðsluna ásamt þeim bændum sem leggja sínar afurðir inn til vinnslu hér þá var veltan á síðasta ári yfir 30 milljarðar kr og rúmlega 900 störf innan hópsins. Eru þá ekki talin með nein afleidd störf í þjónustu við þessa stóru atvinnugrein. Fyrir utan þessa miklu matvælaframleiðslu sem hér fer fram skiptir landbúnaðurinn á svæðinu líka miklu fyrir búsetu og alla þjónustu við íbúa á svæðinu.“

Við sem sitjum í bæjarstjórn Akureyrarbæjar verðum að vera meðvituð um mikilvægi landbúnaðarins í atvinnulífi okkar sveitarfélags, það er ekki aðeins vandi nágrannasveitarfélaga okkar þegar á bjátar hjá bændum, því landbúnaðurinn skiptir akureyrskt atvinnulíf líka mjög miklu máli.  

Hátt vaxtastig og verðbólga hefur víða áhrif 

Þó svo að umfjöllunarefni þessarar greinar sé sá angi atvinnulífsins sem snýr að landbúnaði, þá er hins vegar ekki hægt að horfa fram hjá því að hátt vaxtaumhverfi og verðbólga hefur áhrif á fleiri atvinnugreinar sem og á íbúa sveitarfélagsins, sem sum hver eru rétt að ná að rétta úr kútnum eftir heimsfaraldurinn. Hins vegar er einnig ljóst að staða bændastéttarinnar og sumra fyrirtækja í landbúnaði var erfið fyrir og áhrif þess vaxtaumhverfis og verðbólgu sem við nú búum við hefur því strax mikil áhrif. Það er því morgunljóst að bæjarstjórn Akureyrarbæjar á að leggja sitt lóð á vogarskálarnar, vekja athygli á vandanum og skora á ríkisvaldið að gera það sem í þeirra valdi stendur til þess að bregðast við, t.d. með því að flýta vinnu starfshóps matvælaráðuneytisins, fjármála- og efnahagsráðuneytisins og innviðaráðuneytisins vegna fjárhagsstöðu bænda.

Engin atvinnustefna Akureyrarbæjar

Bæjarstjórn á að mínu mati að huga meira að atvinnumálum almennt og er miður að engin atvinnustefna sé í gildi hjá Akureyrarbæ, en síðasta stefna var í gildi á árunum 2014-2021. Árið 2020 ræddi ég á bæjarstjórnarfundi um mikilvægi þess að gerð yrði ný atvinnustefna og lagði fram tillögu þess efnis. Ég lagði til að ný atvinnustefna yrði gerð á grundvelli samkeppnisgreiningar og myndi sú stefna taka gildi árið 2022. Sú tillaga var samþykkt, en uppleggið var að ný stefna yrði nokkuð frábrugðin fyrri stefnum, þar sem sérstök áhersla yrði lögð á ábyrgðarsvið Akureyrarbæjar og myndi byggja á þremur lykilþáttum sem yrðu: lífsgæði, þjónusta og markaðssetning. Samkeppnisgreining var gerð er mjög gott gagn sem ætti að vera góður grundvöllur að nýrri atvinnustefnu sveitarfélagsins. Ég hef óskað eftir umræðu um atvinnustefnu á næsta fundi bæjarráðs og vona að vel verði tekið í að þessi vinna verði kláruð og ný atvinnustefna Akureyrarbæjar muni líta dagsins ljós áður en langt um líður.

Hilda Jana Gísladóttir er bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar á Akureyri.

Sambíó

UMMÆLI