Á morgun verða 120 ár liðin frá því að merkilegt veitinga- og ferðaþjónustuhús í suðurhluta bæjarins brann til grunna. Beykirinn Lauritz Hansen Jensen reisti hús við Aðalstræti 12 árið 1866 sem hann hugðist nýta fyrir veitingasölu og gistiaðstöðu. Árið 1885 færði Jensen út kvíarnar. Hann lét byggja við húsið eftir teikningum Jóns Chr. Stephánssonar timburmeistara sem jafnframt vann verkið. Veitingahúsið Jensensbaukur var risið og tekið til starfa. Nafnið vísar í eigandann og starfsgrein hans.
Árið 1898 keypti Vigfús Sigfússon húsið og hóf rekstur í því undir nafninu Hótel Akureyri. Eftir að Jensensbaukur brann þann 19. desember 1901, reisti Vigfús glæsilegt stórhýsi á rústunum. Rekstur Hótels Akureyrar hélt áfram í því húsnæði til ársins 1916 þegar Vigfús féll frá. Þetta tignarlega timburhús sem var eitt hið stærsta á Akureyri á þeim tíma, drabbaðist niður á næstu árum og áratugum. Húsið varð eldi að bráð árið 1955.
Nú í upphafi aðventu höfðu þrjár stúlkur í 2. bekk MA samband við Láru Ágústu Ólafsdóttur héraðsskjalavörð á Héraðsskjalasafninu á Akureyri í tengslum við verkefni sem þær voru að vinna í sögu. Ætlun þeirra var að kanna frumheimildir á safninu sem snéru að tíðum eldsvoðum á Akureyri fyrir rúmum hundrað árum síðan. Þær heimsóttu safnið og funduðu með Láru sem og Jóni Hjaltasyni sagnfræðingi. Jón er líklega manna fróðastur um brunana miklu í bænum í upphafi 20. aldar. Eftir gott spjall og leit í kössum fann Lára m.a. upprunalegar teikningar timburmeistarans Jóns Chr. Stephánssonar af Jensensbauk þ.e. viðbyggingunni frá árinu 1885.
Grenndargralið innti þau Láru og Jón eftir því hvort þau hefðu vitað af teikningunum áður en þau fengu heimsókn frá nemendum MA. Lára sagði að hana hefði rekið minni til að einhverjar teikningar af gömlum húsum á Akureyri væru á safninu. Erfitt væri þó að muna allt þegar skráðar færslur um heimildir á safninu væru í kringum 48.000 og þar að auki margar heimildir óskráðar. Jón sagðist ekki hafa vitað af teikningunum þegar þær komu upp úr kassanum, í það minnsta mundi hann ekki eftir að hafa séð þær fyrr en þarna við þetta tækifæri.
Sannarlega óvæntur og skemmtilegur fundur þarna á ferðinni. En þar með er ekki öll sagan sögð. Við nánari athugun komu jafnvel enn áhugaverðari gögn upp úr kassanum. Teikningar af einhverju fallegasta húsi sem nokkru sinni hefur risið á Akureyri að mati Grenndargralsins – húsi sem rétt eins og Jensensbaukur, brann til kaldra kola fyrir rúmum hundrað árum síðan. Nánar um það síðar.
Heimild: Grenndargralið
UMMÆLI