„Skemmtileg útivist sem æfir jafnvægi, lærin og rassinn“ – Skautahlauparar skemmtu sér á tjörninni í gær og grunnnámskeið hefst á morgunLjósmyndir: Þóra Gunnarsdóttir - Skautasamband Íslands.

„Skemmtileg útivist sem æfir jafnvægi, lærin og rassinn“ – Skautahlauparar skemmtu sér á tjörninni í gær og grunnnámskeið hefst á morgun

Hópur fólks kom saman á tjörninni í Innbænum í gær til þess að stunda skautahlaup. Fleiri myndir frá skemmtilegheitunum er að finna neðst í fréttinni. Þeir sem skautuðu á tjörninni í gær höfðu mismikla reynslu af íþróttinni, en þó hún sé með vinsælli vetraríþróttum úti í heimi þá eru afar fáir Íslendingar sem stunda skautahlaup.

Íþróttin hafði í raun legið í dvala hér á landi frá því árið 1980 og þar til hún var endurvakin hér á Akureyri fyrir tveimur árum síðan. Frá því árið 2022 hefur um fimm manna hópur æft reglulega skautahlaup á Akureyri undir leiðsögn þjálfarans Erwins van der Werve.

Erwin segir í samtali við Kaffið að um fimmtán til tuttugu manns hafi komið og prófað skautahlaup undanfarin tvö ár, en að það hafi reynst erfitt að fjölga iðkendum þegar æfingar eigi sér bara stað snemma morguns. Það er því fagnaðarefni að nýjar skautahlaupsæfingar sem fara af stað á morgun verði á tíma sem henta fleirum, þ.e.a.s. á miðvikudagskvöldum. Frekari upplýsingar um æfingarnar er að finna hér að neðan og á heimasíðu Skautafélags Akureyrar.

Þaulvanur þjálfari

Erwin hefur stundað skautahlaup frá unga aldri og tók meðal annars þátt í 30 kílómetra langri skautahlaupskeppni aðeins ellefu ára gamall. Erwin er af hollensku bergi brotinn og ólst þar upp. Hann líkir skautamenningu í Hollandi við skíðamenningu í Noregi og segir að flest hollensk börn séu sett á skauta um fjögurra ára aldur.

Erwin er svo nýsnúinn heim frá Finnlandi, þar sem hann og dóttir hans tóku þátt í æfingabúðum hjá skautahlaups- og hokkíklúbbnum Jyväskilää, en sá klúbbur hafði sérstaklega óskað eftir samstarfi við Skautafélag Akureyrar. Hann er því í topp formi til þess að kenna námskeiðið sem hefst á morgun.

Hvað varð um skautahlaupið?

Aðspurður hvers vegna skautahlaup hafi ekki verið vinsælla á Íslandi undanfarna áraugi en raun ber vitni segir Erwin að líklega hafi það fallið úr tísku þegar flottar innanhúss skautahallir voru byggðar. Þá hafi flestir viljað skauta frekar inni, en hvorki rétt aðstaða né þjálfarar verið þar til staðar fyrir skautahlaup.

Norðurland fullkomið fyrir skautahlaup

Erwin segir að hann hafi sjálfur talið það ógerlegt að stunda skautahlaup í skautahöllinni hér. Svo hafði Skautasamband Íslands samband við hann fyrir um tveim árum síðan og bað hann að kenna íþróttina hér, en þá kom annað í ljós: „Eiginlega er aðstæðan alveg frábær hérna, bara betri held ég en í Hollandi.“

Ef skautahlaup nær að festa sig í sessi á Íslandi eru í raun miklir möguleikar í boði hér á Norðurlandi fyrir iðkun þess. Erwin ber Akureyri saman við Holland, þar sem íþróttin nýtur mikilla vinsælda. Hér á Akureyri er hægt að skauta innanhúss í skautahöllinni allt árið um kring, en í Hollandi loka hallir frá apríl og fram í október því kostnaðurinn við að kæla þær á þeim árstíma er of mikill. Hér eru líka mun betri aðstæður til þess að stunda skautahlaup utandyra. Erwin segir að í Hollandi séu á fjórða tug útisvella, en þau sé aðeins hægt að nota í þrjá til fjóra daga ár hvert og að tugir manna þurfi að vinna alla nóttina til að gera þau tilbúin fyrir næsta dag. Til samanburðar segir Erwin að hér á Akureyri sé lítið mál að útbúa útisvell og með litlu viðhaldi sé það nothæft frá nóvember og fram í mars. Hingað til hafa Erwin og nemendur hans notast við tjörnina fyrir framan skautahöllina, en nú vinnur hann einnig að því að koma upp útisvelli á hlaupabrautinni í Hrafnagili.

Erwin segir að erlendir aðilar séu jafnvel farnir að horfa á Ísland, Norðurland sérstaklega, sem hugsanlegan áfangastað fyrir skautahlaupsferðir. Hann átti nýverið samtal við Hollending sem er vanur að fara til Austurríkis að stunda skautahlaup, en undanfarin ár hefur ekki verið þar nægilegt frost. Erwin segir viðkomandi ætla að gera sér ferð til Mývatnssveitar í vetur í von um að halda skautahlaupskeppni á Mývatni á næsta ári.

Skautahlaup er fyrir alla

Erwin segir að skautahlaup sé íþrótt fyrir alla: „Í Hollandi eru allir á sama tíma á ísnum og skauta hring eftir hring, aveg frá fjögurra ára til áttatíu ára.“ Hann segir skautahlaup vera skemmtilega útivist og bendir á að ekki þurfi að nota mikla krafta til þess að fara hratt á ísnum, sem sé mikið stuð. Einnig bendir hann á að skautahlaup þjálfi jafnvægi og sé mjög góð æfing fyrir bæði lærin og rassinn.

Langar þig að prófa?

Áhugasamir lesendur á öllum aldri geta nú sjálfir prófað þessa skemmtilegu íþrótt. Skautafélag Akureyrar fer af stað með námskeið á morgun þar sem kennd verður grunntækni í skautahlaupi: Hvernig eigi að nota hlaupaskauta, halda jafnvægi, taka beygjur og finna takt. Fyrsta æfing er í skautahöllinni klukkan 19:30 á morgun, miðvikudaginn 16. október.

Hægt verður að nota eigin skauta eða fá lánaða, en að sögn Erwins er nýbúið að festa kaup á flottum hlaupaskautum frá Hollandi. Til viðbótar við miðvikudagskvöld verður hægt að æfa á fimmtudagsmorgnum og stefnt verður að útiæfingum þegar veður og aðstæður leyfa. Frekari upplýsingar og skráningu er hægt að finna á heimasíðu SA með því að smella hér.

Sambíó

UMMÆLI