Sjúkraliðanám er afar góður grunnur fyrir háskólanám í hjúkrunarfræði. Um það eru þær sammála, Guðný Lilja Jóhannsdóttir og Harpa Kristín Sæmundsdóttir, sem báðar luku sjúkraliðanámi í VMA og hafa síðan fylgst að í námi í hjúkrunarfræði í Háskólanum á Akureyri. Þær útskrifast sem hjúkrunarfræðingar í vor.
Guðný, sem er 27 ára gömul, rifjar upp að hún hafi lokið sjúkraliðanámi frá VMA árið 2011. Hún segist ekki hafa verið alveg viss hvaða leið hún ætti að fara í námi að loknum grunnskóla en heilbrigðisvísindi hafi þó verið henni ofarlega í huga. Hún hafi leitt hugann að því að fara á náttúrufræðibraut en svo hafi farið að námsráðgjafi í Lundarskóla á Akureyri hafi talið hana á að innrita sig á sjúkraliðabraut í VMA. „Ég sé ekki eftir því að hafa farið þessa leið í námi. Ég tók sjúkraliðann og lauk jafnframt stúdentsprófi á hálfu fjórða ári. Ég gerði síðan hlé á námi og fór ekki í hjúkrunarfræði í HA fyrr en árið 2014,“ segir Guðný Lilja.
„Ég var í þrjú ár í Framhaldsskólanum á Laugum en tók síðasta árið til stúdentsprófs fyrir sunnan en kom síðan norður til Akureyrar. Ég hafði lengi alið með mér þann draum að verða hjúkrunarfræðingur og lét verða af því að innrita mig í hjúkrunarfræði í Háskólanum á Akureyri árið 2010. Það kom þó fljótlega í ljós að ég hafði ekki nægilegt sjálfstraust til þess að hella mér út í krefjandi háskólanám og því hætti ég eftir nokkrar vikur. Ef til vill hafði það sitt að segja að ég hafði ekki setið á skólabekk í sjö ár, frá 2003 þegar ég lauk stúdentsprófinu. Ég ákvað þá að fara í VMA og fór í sjúkraliðanámið og lauk því. Ég hafði í raun gefið hjúkrunarfræðina upp á bátinn en María Albína Tryggvadóttir kennari á sjúkraliðabrautinni hvatti mig eindregið til þess að reyna aftur við hjúkrunarfræðina og það gerði ég árið 2014 og við Guðný Lilja höfum því fylgst að í gegnum námið allan tímann,“ segir Harpa Kristín en hún er 37 ára gömul.
Guðný Lilja og Harpa Kristín eru á sama máli um að sjúkraliðanámið sé einstaklega góður grunnur fyrir nám í hjúkrun, ef fólk á annað borð vill fara í frekara nám að loknu sjúkraliðanámi. Margt í sjúkraliðanáminu segja þær nýtast afar vel í hjúkrunarfræðinni, bæði bóklegi hlutinn og ekki síst verklegi hlutinn. Í bóklega hlutanum nefna þær sem dæmi að áfangar í sjúkraliðanáminu sem Börkur Már Hersteinsson kenndi þeim á sínum tíma í líffæra- og lífeðlisfræði hafi nýst þeim afar vel í háskólanáminu og þá sé vert að nefna að sjúkraliðar standi mörgum hjúkrunarfræðinemum framar í náminu því þeir hafi að baki víðtæka reynslu í umönnun og aðhlynningu fólks, nokkuð sem að sjálfsögðu er stór hluti af starfi hjúkrunarfræðinga. „Við vitum um nokkur dæmi þess að nemendur í hjúkrunarfræði hafa hætt námi eftir að hafa farið í gegnum fyrsta verklega hlutann. Það er hins vegar ekkert í þessum verklega hluta sem kemur okkur sjúkraliðunum á óvart. Í sjúkraliðanáminu fengum við fína reynslu, hvort sem er í umönnun aldraðra eða inni á sjúkrastofnunum,“ segja þær og rifja upp að í námi sínu í VMA hafi þær bæði fengið reynslu í verknámi hér innanlands og einnig erlendis. Þannig hafi Guðný Lilja farið í þriggja vikna verknám til Randers í Danmörku þar sem hún vann við heimahjúkrun og Harpa Kristín starfað í þrjár vikur á endurhæfingadeild í Finnlandi.
Frá árinu 2008 hefur Guðný Lilja starfað á dvalarheimilinu Hlíð á Akureyri og kynnst þar vel umönnun aldraðra. Það sama á við um Hörpu Kristínu sem starfaði í tíu ár á Hlíð. Fyrstu þrjú árin í hjúkrunarfræðináminu starfaði Guðný í hlutastarfi á Hlíð með náminu en í vetur hefur hún verið í 50% starfi með skólanum á lyfjadeild Sjúkrahússins á Akureyri. Harpa starfar með skólanum í 40% starfi á bráðamóttöku Sjúkrahússins á Akureyri. Í sumar verða þær báðar í fullu starfi á sjúkrahúsinu, Harpa á bráðamóttökunni og Guðný á skurðlækningadeild.
Óvenju fáir hjúkrunarfræðinemar útskrifast úr staðnámi í HA í vor eða sjö. Við bætast nokkrir fjarnemar. En athyglisvert er að fjórir af þessum sjö væntanlegu hjúkrunarfræðingum sem ljúka staðnámi í vor eru sjúkraliðar.
Guðný og Harpa eru á einu máli um að það hafi verið hárrétt ákvörðun hjá þeim báðum að fara þessa leið í námi, þ.e.a.s að fara fyrst í sjúkraliðanám og síðan hjúkrun, enda hafi þær nú þegar öðlast umtalsverða starfsreynslu sem muni nýtast þeim afar vel í störfum þeirra í framtíðinni. „Sjúkraliðanám er mjög góður grunnur fyrir svo margt, ef fólk kýs að halda áfram í námi. Auk hjúkrunarfræðinnar vil ég t.d. nefna sjúkraflutninga,“ segir Harpa og Guðný bætir við að námið sé alhliða góður grunnur fyrir alla, fyrir lífið sjálft.
Sem fyrr segir er framundan brautskráning Guðnýjar og Hörpu úr hjúkrunarfræði í HA. Þær vinna nú saman að lokaverkefni ásamt tveimur öðrum nemendum. Raunar eru þrír af fjórum nemendum í verkefninu útskrifaðir sjúkraliðar. Verkefnið felst í því að að vinna rannsóknaráætlun um svokallaða hermikennslu – þar sem sett er upp tilvik þar sem allir hlutaðeigandi heilbrigðisstarfsmenn koma að úrlausn og umönnun. Verkefnið er umfangsmikið en afar áhugavert, að þeirra sögn.
Greinin birtist upphaflega á vma.is
UMMÆLI