Sjúk ást á Akureyri

Sjúk ást á Akureyri

Sjúk ást er fræðslu- og forvarnaverkefni fyrir ungt fólk og tekur á mörkum, samþykki og kynferðislegri áreitni. Áhersla er lögð á að unglingarnir velti fyrir sér hvað mörk eru, hvernig þau geta sett sér mörk og hversu mikilvægt það er að virða bæði eigin mörk og annarra, í samskiptum hvers konar. Í fræðslunni er farið yfir hvað einkennir heilbrigð sambönd, óheilbrigð og ofbeldis sambönd í vinasamböndum, parasamböndum og fjölskyldusamböndum. Jafnframt eru unglingarnir hvattir til að taka ábyrga afstöðu til kynlífs og kláms. Með herferðinni er markmiðið að fræða ungt fólk með það að leiðarljósi að útrýma kynbundnu ofbeldi á Íslandi.  

Í september mánuði stóð yfir herferð á vegum Stígamóta og Samfés með yfirskriftinni Sjúk ást, með sérstakri áherslu á klám og mörk. Fræðslan er unnin af starfsfólki Stígamóta og flutt af starfsfólki félagsmiðstöðva víðs vegar um landið. Á Akureyri fengu nemendur í 8. – 10. bekk þessa fræðslu.

Íslensk börn eru mjög ung að meðaltali þegar þau sjá klám í fyrsta sinn. Niðurstöður úr rannsókninni Ungt fólk á vegum rannsókna og greiningar sýnir að klámáhorf unglinga eykst svo jafnt og þétt á unglingsárum (8. – 10. bekk) en til að mynda hafa 94% drengja í 10. bekk horft á klám. Klámáhorf getur haft neikvæð áhrif á viðhorf og væntingar ungs fólks til kynlífs. Það er því gríðarlega mikilvægt að fræða unglinga um góð og heilbrigð samskipti þar sem virðing og jafnræði er í hávegum höfð. Til þess að geta talað saman um langanir og líðan þarf hver einstaklingur að átta sig á hvað honum líður vel með, hvernig hver og einn vill láta koma fram við sig og átta sig á eigin mörkum. Enn fremur læra unglingarnir að langanir eins geta rekist á mörk annars og því nauðsynlegt að hlusta á aðra og taka eftir skilaboðum án orða; líkamstjáningu, svipbrigðum eða tón t.d.. Mikilvægt er að þora að hafa samskipti og átta sig á því að hugsunarlestur er flest öllum ómögulegur og því óraunhæft að setja þá kröfu á sig að vita nákvæmlega hvað annar aðili vill. Án þess að spyrja.  

Á heimasíðunni sjukast.is má sjá alls kyns fræðsluefni, myndbönd og upplýsingar sem foreldar geta nýtt sér fyrir umræður við unglinginn heima.

Forvarna- og félagsmálaráðgjafar Akureyrar

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó