NTC

Sjómannadagurinn á Akureyri

Mynd: María Helena Tryggvadóttir.

Blásið verður til hátíðarhalda fyrir alla fjölskylduna á Akureyri í tilefni sjómannadagsins sunnudaginn 3. júní nk. Bátar af öllum stærðum og gerðum, með eikarbátinn Húna II í broddi fylkingar, bjóða til hópsiglinga um Pollinn og á útivistar- og tjaldsvæðinu að Hömrum verður fjölskylduskemmtun.

Dagurinn hefst með sjómannamessu í bæði Akureyrarkirkju og Glerárkirkju. Að þeim loknum, eða kl. 12.15, verður lagður blómsveigur að minnisvarða um týnda og drukknaða sjómenn við Glerárkirkju.

Bæjarbúar eru hvattir til að draga íslenska fánann að húni í tilefni dagsins. Slysavarnafélag Akureyrar býður sjómannadagsmerki til sölu á Torfunefsbryggju og Hömrum.

Dagskrá dagsins á Akureyri er þessi:

Kl. 13.00: Húni II og fleiri bátar sigla frá Torfunefsbryggju að Sandgerðisbót þar sem bátar safnast saman. Allir velkomnir í siglingu. Um kl. 13.45 hefur Lúðrasveit Akureyrar leik sinn og flytur nokkur létt lög á Torfunefsbryggju. Félagar í Siglingaklúbbnum Nökkva sigla seglum þöndum. Skipverjar á Húna II bjóða aftur til lystisiglingar um Pollinn kl. 16.00 og kl. 17.00. Enginn aðgangseyrir og allir velkomnir.

Kl. 14.00: Hátíðarhöld hefjast á Hömrum. Þar verður ýmislegt til gamans gert fyrir unga sem aldna. Hoppukastalar, rafmagnsbílar, koddaslagur, flekahlaup, smábátar á tjörnunum og grillaðar pylsur til sölu svo eitthvað sé nefnt. Kl. 15.00: Dagskrá á sviði hefst. Ivan Mendez stýrir fjöldasöng, Einar Mikael töframaður sýnir magnaðar sjónhverfingar og Norðlenskar konur í tónlist flytja sjómannalög. Kynnar verða Fanney Kristjáns og Edda Borg.

Hátíðarhöld í tilefni sjómannadagsins verða laugardaginn 2. júní í Hrísey og Grímsey.

Hópsigling verður frá Hrísey kl. 10.00 og klukkan 11.10 verður sjómannamessa í kirkjunni. Farið verður í leiki með alls kyns sprelli á hátíðarsvæðinu og við smábátahöfnina frá kl. 13.00. Kaffisala Slysavarnafélagsins verður síðan í Íþróttamiðstöðinni kl. 15.00.

Efnt verður til hátíðarhalda á hafnarsvæðinu í Grímsey kl. 14.00 á laugardag og sjómannadagskaffi verður í félagsheimilinu Múla kl. 15.00 á sunnudag.

Að hátíðarhöldunum á Akureyri standa Akureyrarstofa, Sjómannafélag Eyjafjarðar, Siglingaklúbburinn Nökkvi, Húni II, Akureyri Whale Watching, Útilífs- og umhverfismiðstöð skáta að Hömrum, Hafnarsamlag Norðurlands, Keli hvalaskoðun og Skátafélagið Klakkur ásamt með fleirum.

Fréttatilkynning af akureyri.is

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó