Samkvæmt nýrri könnun MMR á afstöðu fólks til framboða í komandi alþingiskosningum munu frambjóðendur úr sjö flokkum í Norðausturkjördæmi komast á þing í haust. Enginn frambjóðandi úr ríkisstjórnarflokki VG kemst þó inn samkvæmt könnuninni. Þá er enginn úr Viðreisn sem kemst inn heldur.
Könnunin, sem MMR gerði í samstarfi við Morgunblaðið og mbl.is, var gerð dagana 18.-24. ágúst og tóku 932 þátt í henni, en 772 tóku afstöðu til framboða í kosningunum.
Þau sem komast á þing samkvæmt niðurstöðum MMR eru:
- Logi Einarsson, Samfylkingunni
- Ingibjörg Ólöf Isaksen, Framsóknarflokknum
- Njáll Trausti Friðbertsson, Sjálfstæðisflokknum
- Hilda Jana Gísladóttir, Samfylkingunni
- Línek Anna Sævarsdóttir, Framsóknarflokknum
- Einar Brynjólfsson, Pírötum
- Haraldur Ingi Haraldsson, Sósíalistaflokknum
- Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Miðflokknum
- Berglind Ósk Guðmundursdóttir, Sjálfstæðisflokknum
Þá nær Jakob Frímann Magnússon úr Flokki Fólksins jöfnunarsæti. Í frétt Morgunblaðsins kemur fram að svör úr kjördæmum hafi verið mismörg og því beri að líta á könnunina sem samkvæmisleik fremur en kosningaspá.
„Þegar niðurstaðan er reiknuð í þingsæti samkvæmt reglum landskjörstjórnar ná sömu níu flokkar inn á þing og í fyrri könnunum. Rétt er þó að ítreka að vegna þessa fjölda framboða eru iðulega fá svör að baki fylgishlutfalli, sérstaklega í landsbyggðarkjördæmunum. Fyrir vikið geta vikmörkin verið mjög há og rétt að taka forspárgildi nákvæmra þingsætaútreikninga með varúð. Sömuleiðis þarf sáralitla breytingu til þess að flokkar skiptist á þingsætum, sem þá færast einatt um kjördæmi vegna jöfnunarsæta. Af þeim sökum ber að líta á væntanlegt þingmannatal hér að ofan sem samkvæmisleik fremur en kosningaspá,“ segir um könnunina á vef mbl.is.
UMMÆLI