SjallyPally er hafiðMynd/Þór

SjallyPally er hafið

Stærsta pílumót sem haldið hefur verið á Íslandi, Akureyri Open 2025, er nú hafið í Sjallanum. Keppni hófst kl. 14:00 í dag og stendur yfir alla helgina. Riðlakeppni fer fram í dag, en útsláttarkeppni hefst kl. 10:00 á morgun, laugardag.

224 keppendur taka þátt, þar af 192 karlar og 32 konur. Keppt er í 32 riðlum í karlaflokki og 4 riðlum í kvennaflokki, þar sem efstu keppendur komast áfram í úrslit. Úrslitakvöldið fer fram á laugardag kl. 19:30 með leikjum á stóra sviðinu og opnar Sjallinn kl. 18:00.

Árið 2023 tóku 160 keppendur þátt en nú eru þeir orðnir 224. Rúmlega 400 miðar hafa þegar selst á úrslitakvöldið en enn eru lausir miðar fáanlegir.

Félagarnir Russ Bray og John McDonald mæta í Sjallann og eftirvæntingin er vægast sagt mikil. Russ Bray hefur verið kallari (dómari) á AllyPally (heimsmeistaramótinu í pílukasti) til fjölda ára en er hættur í dag og starfar John McDonald sem kynnir í dag á stærstu mótum í erlendu pílukasti, segir á vefsíðu Þórs.

Góðgerðarleikur og beint streymi

Nýjung í ár er góðgerðarleikur þar sem safnað er fyrir Hetjurnar, félag langveikra barna á Norðurlandi. Fyrir hvert „180“ sem hitt safnast 5.000 kr., með stuðningi frá styrktaraðilum.

Þeir sem komast ekki í Sjallann geta fylgst með beinu streymi frá úrslitunum á visir.is og YouTube-rás Live Darts Iceland.

Glæsileg verðlaun

Verðmæti vinninga nemur alls 3 milljónum króna, þar af 1,2 milljónir í verðlaunafé. Sigurvegarinn hlýtur einnig miða fyrir tvo á heimsmeistaramótið AllyPally.

Á vefsíðu Þórs segir:

„Stjórn píludeildar Þórs hvetur alla þórsara að kíkja við í Sjallann á föstudag og laugardag og horfa á bestu pílukastara landsins etja kappi! Jafnframt þakkar mótsstjórn SjallyPally öllum þeim aðilum sem lögðu hönd á plóg og létu þetta verkefni ganga upp. Þið vitið hverjir þið eruð!“

Sambíó
Sambíó