Sinfóníuhljómsveit Norðurlands hlýtur styrk í tilefni af 30 ára afmæli

Sinfóníuhljómsveit Norðurlands hlýtur styrk í tilefni af 30 ára afmæli

Sinfóníuhljómsveit Norðurlands á 30 ára afmæli um þessar mundir. Að því tilefni var undirritaður sérstakur styrktarsamningur við starfsemi Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands. Heildargreiðsla menningar- og viðskiptaráðuneytisins og innviðaráðuneytis til Menningarfélags Akureyrar á grundvelli samningsins er tíu milljónir á ári í þrjú ár.

Menningar- og viðskiptaráðuneytið og innviðaráðuneytið veita Menningarfélagi Akureyrar styrkinn en honum er ætlað að efla skapandi greinar á Norðurlandi með því að styrkja landshlutann sem atvinnusvæði fyrir hljóðfæraleikara.

„Það hefur verið aðdáunarvert að fylgjast með vexti og uppgangi Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands á síðustu árum. Stjórnvöld hafa það að markmiði að skapa menningu sterka umgjörð um allt land og auka aðgengi landsmanna allra að menningu. Ég óska Norðlendingum til hamingju með 30 ára afmæli Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.

„Hljómsveitin hefur verið kyndilberi klassískrar tónlistar í landshlutanum og stuðlað að frumflutningi á nýrri íslenskri sinfónískri tónlist. Hún hefur einnig verið tákn fyrir frumkvöðlastarfsemi og uppbyggingu nýrra atvinnumöguleika fyrir klassíska hljóðfæraleikara og sérhæft tæknifólk utan höfuðborgarinnar,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra.

Sinfóníuhljómsveit Norðurlands var stofnuð árið 1993 og hefur vaxið mikið undanfarin ár, sem hluti af rekstri Menningarfélags Akureyrar. Hefur sinfóníuhljómsveitin meðal annars unnið að því að skapa aukin atvinnutækifæri fyrir hljóðfæraleikara á Norðurlandi og sótt fram á erlendri grundu með útflutningi á alþjóðlegri kvikmyndatónlist sem tekin er upp í Hofi.

Nánar á vef Stjórnarráðsins.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó