SÍMEY fagnar tuttugu ára afmæli

SÍMEY fagnar tuttugu ára afmæli

Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar fagnar tuttugu ára afmæli á þessu ári. Mikið vatn hefur til sjávar runnið á þessum tíma og miðstöðin hefur tekið breytingum í takti við breyttar áherslur og þjóðfélagsbreytingar. Eðli SÍMEY eins og annarra stofnana er að vera sveigjanleg og geta lagað sig fljótt að breytingum. Gott dæmi um þetta er sú áskorun sem SÍMEY eins og aðrar menntastofnanir stóðu frammi fyrir þegar samkomubann skall á 16. mars sl. vegna covid 19 veirunnar og skyndilega þurfti að gjörbreyta kennslu og starfsháttum til þess að geta þjónað nemendum og öðrum sem leita til SÍMEY.

Valgeir B. Magnússon, framkvæmdastjóri SÍMEY, segir miðstöðina hafa víða skírskotun og starfsemi hennar sé fjölbreyttari en margir kunni að halda. Breitt framboð námskeiða og lengri námsleiða segi sitt um fjölbreytnina og undirstriki mikilvægi miðstöðvarinnar fyrir Eyjafjarðarsvæðið. Til SÍMEY sæki þeir sem ekki hafi lokið formlegri framhaldsmenntun og einnig þeir sem hafi lokið framhaldsmenntun en vilji auka þekkingu sína. Þetta eigi bæði við um þau námskeið og námsleiðir sem SÍMEY bjóði upp á en einnig eigi þetta við um náms- og starfsráðgjöf sem öllum sé opið að sækja til SÍMEY. Fólk sæki náms- og starfsráðgjöf m.a. til þess að leita leiða til þess að þróa sig áfram í menntun og starfi. Á tímum hraðra þjóðfélagsbreytinga og þegar fjórða iðnbyltingin hafi á ýmsan hátt sett mark sitt á atvinnulífið segir Valgeir aldrei mikilvægra en einmitt núna að þróast í starfi og sækja sér þá þekkingu sem atvinnulíf dagsins í dag kalli eftir.

Hjá SÍMEY eru tólf starfsmenn en auk þeirra starfa hjá miðstöðinni um 150 verktakar, þar á meðal fjöldi kennara. Verkefnin eru af ýmsum toga og á SÍMEY í nánu samstarfi við stofnanir og fyrirtæki um námskeið og námsleiðir. Hæfnigreiningar á vinnumarkaði eru vaxandi þáttur í starfseminni og einnig hefur raunfærnimat verið ríkur þáttur hjá SÍMEY í ýmsum atvinnugreinum.

Valgeir Magnússon segir erfitt að meta hvað framtíðin beri í skauti sér en ljóst sé að SÍMEY hafi ríku hlutverki að gegna í hröðum samfélagsbreytingum og mörg ónýtt tækifæri séu í fullorðinsfræðslunni. Valgeir segir að dag- og kvöldnám verði eftir sem áður ríkur þáttur í starfseminni en ætla megi að hlutur fjarnáms eigi eftir að aukast mikið í framtíðinni. En það beri að undirstrika að allir geti leitað til SÍMEY, hvort sem fólk hafi lokið skilgreindri framhaldsmenntun eða ekki.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó