Akureyringurinn Silvía Rán Björgvinsdóttir, landsliðskona í íshokkí, hefur yfirgefið Skautafélag Akureyrar og skrifað undir samning við lið Göteborg HC í Svíþjóð. Þetta kemur fram á heimasíðu Göteborg HC.
Göteborg HC er í úrvalsdeildinni í íshokkí í Svíþjóð en deildin er talin ein sú sterkasta í heimi. Systir Silvíu, Diljá Sif Björgvinsdóttir, spilaði áður fyrir Göteborg HC en þá lék liðið í næst efstu deild og Silvía verður því fyrsti Íslendingurinn sem mun spila í úrvalsdeildinni í Svíþjóð.
Á heimasíðu Göteborg HC kemur fram að félagið hafi fylgst lengi með Silvíu Rán. Henni er lýst sem miklum markaskorara og sagt er að aðdáendur liðsins megi búast við því að hún eigi eftir að valda markvörðum í deildinni áhyggjum. Silvía var til viðtals á heimasíðu liðsins en hún segir að það sé heiður að fá tækifæri til þess að skrifa undir hjá félaginu.