Silja og Hafdís luku keppni á EvrópumótinuAkureyrardætur

Silja og Hafdís luku keppni á Evrópumótinu

Þær Silja Jóhannesdóttir og Hafdís Sigurðardóttir luku sinni keppni á Evrópumótinu í götuhjólreiðum í gær. Ekki tókst þeim að klára keppni þar sem þær voru flaggaðar út eftir að hafa hjólað um það bil 70 af 128,3 km.

Hafdís og Silja voru á meðal 99 keppenda sem ræstu á EM í götuhjólreiðum í München í gær. Þær náðu ekki að halda sér innan tímatakmarkana og fengu því ekki að ljúka keppni.

Akureyrardætur hafa því lokið keppni á Evrópumótinu í götuhjólreiðum en Silja Rúnarsdóttir tók ekki þátt í gær vegna veikinda.

„Keppendur vissu fyrir ræsingu að þetta yrði hröð keppni í afar tæknilegri braut og þær stöllur sýndu hetjulega baráttu og vilja til þess að klára keppni.Þjóðir á borð við Holland og Ítalía sáu til þess að halda hraðanum ávallt uppi og var aldrei slegið af fyrir endasprettinn við Odeonsplatz í hjarta München,“ segir í tilkynningu Hjólreiðafélags

„Þetta var bara ógeðslega erfitt en gaman. Það var mjög mikilvæg staðsetning sem ég vissi af, ég þurfti að staðsetja mig vel. Ég reyndi mitt allra besta en það kemur sem sagt svona U-beygja inni í miðjum bæ. Ég var illa staðsett og var alveg að stoppa og þar missti ég hópinn og náði honum ekki aftur,“ sagði Silja í viðtali við RÚV eftir keppni.

Hafdís segir í viðtali við RÚV að hraðinn hafi einfaldega verið of mikill. „Hraðinn var mikill frá upphafi og maður þurfti bara að berjast fyrir hverjum einasta kílómetra. Ég gerði það en því miður dugði það ekki til. Mér leið ágætlega en það var erfitt að halda sig í fremri hlutanum. Það var svo mikil barátta allan tímann. Hraðinn var bara of mikill.“

Öll úrslit götuhjólamóta Evrópumótsins má sjá hér á heimasíðu UEC.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó