Silja Björk gefur út bók um sjálfsvígstilraunir og þunglyndið: Vatnið, gríman og geltið

Silja Björk gefur út bók um sjálfsvígstilraunir og þunglyndið: Vatnið, gríman og geltið

Silja Björk Björnsdóttir, Akureyringur, baráttukona í umræðu um geðsjúkdóma og nú fljótlega rithöfundur, stefnir á að gefa út sína fyrstu bók. Í gær, 1. apríl, fór af stað Karolina-fund söfnun fyrir útgáfu bókarinnar; Vatnið, gríman og geltið sem er fyrsta bók Silju Bjarkar en hún hefur verið sex ár í vinnslu.

Silja Björk hefur verið mjög áberandi í samfélaginu í baráttu sinni fyrir geðsjúkdómum. Hún er ein af frumkvöðlum #égerekkitabú herferðarinnar og hefur skrifað fjölda greina um málefnið, veitt ótal viðtöl og verið þátttakandi í sjónvarpsþáttunum Bara geðveik, svo fátt eitt sé nefnt. Hún hélt einnig fyrirlestur á TEDx ráðstefnu í Hörpu vorið 2014, um upplifun sína af sjálfsvígshugsunum. Fyrirlesturinn er titlaður The Taboo of Depression og hefur fengið rúmlega 140.000 áhorf á YouTube.

„Þetta er ekki aprílgabb! Geðsjúklingur ætlar í alvörunni að gefa út bók og það í gegnum Karolina-fund!“

Vatnið, gríman og geltið er einstök bók því um ákveðna „sjálfsæviskeiðssögu“ með örlitlu skáldaleyfi er að ræða. Vatnið, gríman og geltið er fyrsta bók Silju Bjarkar og er mjög persónulegt verkefni að hennar sögn. Hún er opinská, heiðarleg og fjallar hispurslaust um þunglyndi og sjálfsvígstilraunir.

„Vatnið, gríman og geltið er saga mín af þunglyndi, sjálfsvígstilraunum, dulúð vatnsins, grímunum sem við berum öll og geltandi, svörtum hundum. Sagan er byggð á upplifun minni á geðsjúkdómum og frásögnin er litrík og ljóðræn á sama tíma og hún kryfur geðheilbrigðiskerfið, bataferlið og lífið sjálft. Ég byrjaði að skrifa þessa bók fyrir sex árum, löngu áður en ég vissi að þetta væri bók. Mér leið ennþá mjög illa eftir innlögnina á geðdeild og þurfti að koma tilfinningunum frá mér. Ég ákvað svo eftir rúmlega ár af skrifum að ég ætlaði einn daginn að gefa bókina út. Ég vona að þessi söfnun geti gert þann draum að veruleika,“ segir Silja Björk.

Áheitasöfnunin er fjölbreytt, allt frá einföldum styrkjum til verkefnisins til persónulegrar heimsóknar frá mér, bæði með forvarnarfyrirlestra og upplestur úr verkinu. Markmið söfnunarinnar er að safna fyrir yfirlestri, ritstjórn og umbroti bókarinnar, útgáfu hennar og litlu fögnuðarteiti. Hægt er að leggja söfnuninni lið og fræðast betur um bókina með því að ýta hér.

Silja heldur einnig út bloggsíðunni www.siljabjork.com fyrir áhugasama.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó