NTC

Silfurhringur í eigu liðsforingja fannst á Akureyri

Silfurhringur í eigu liðsforingja fannst á Akureyri

Forláta silfurhringur úr seinni heimsstyrjöldinni fannst á Akureyri síðastliðinn laugardag. Varðveislumenn minjanna voru við rannsóknir á vettvangi ameríska setuliðsins þegar djásnið skoppaði upp úr moldinni öllum að óvörum. Hringurinn er svokallaður WWII U.S. Army Officers Ring.

Innan í hringnum er grafið lógó fyrirtækisins AMICO (American Insignia Company), örn með vængina úti ofan á stöpli og skeifulaga borði undir stöplinum. Amico var með höfuðstöðvar í New York og var í rekstri 1919-1982. Á stríðsárunum framleiddi fyrirtækið skartgripi, orður og barmmerki fyrir bandaríska herinn. Logo fyrirtækisins breyttist í upphafi stríðsins sem gerir gripi með þessu tiltekna logoi fágæta. Líklegt er því að hringurinn sem fannst á Akureyri um helgina sé ekki yngri en frá árinu 1942. Undir stöplinum er grafið orðið Sterling til marks um að hringurinn sé gerður úr 92,5% hreinu silfri.

Flöturinn á hringnum er úr svörtum glerungi og til hliðar við hann á langhliðum eru svartar skrautlínur. Í glerungnum er rás þar sem áður var áfstur gylltur örn. Glansandi svartur flöturinn með gyllingu hefur því líkast til skinið skært á stríðsárunum. Í dag er glerungurinn máður og gylltur örninn floginn burt. Silfrið í hringnum sjálfum skín hins vegar jafn skært í dag og þegar setuliðsmaður á Akureyri, líklega liðforingi í ameríska hernum, gekk með hann fyrir 80 árum síðan. Á heimasíðum erlendra safnara má sjá að hringar sem þessi eru ekki á hverju strái.

Meðfylgjandi mynd sýnir hringinn eins og hann lítur út í dag (til vinstri) og hvernig hann gæti hafa litið út á árum seinni heimsstyrjaldarinnar þegar gyllti örninn sat sem fastast á svörtum fletinum (til hægri). Uppi eru hugmyndir um að koma hringnum í sitt upprunalega horf. Fleiri myndir má sjá á heimasíðu Grenndargralsins, www.grenndargral.is.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó