Sigursælasti leikmaður Skautafélags Akureyrar frá upphafi, Sigurður Sveinn Sigurðsson, var heiðraður af félaginu síðustu helgi. Nýr risaskjár í Skautahöllinni á Akureyri var vígður síðasta laugardag en vígslan var notuð sem tilefni fyrir heiðrunina og stal senunni í upphafi leiks SA Víkinga og SR í Hertz-deild karla. Þetta kemur fram í umfjöllun á heimasíðu Skautafélags Akureyrar.
Lék 400 leiki í meistaraflokki og skoraði 292 mörk
Siggi Sig lagði skautana á hilluna sl. vor en þá hafði hann æft og keppt í meistaraflokki samfleytt í 27 ár, eða frá árinu 1991 þegar Íslandsmótið hófst. Siggi hefur unnið 21 Íslandsmeistaratitil á ferli sínum, 19 þeirra með Skautafélagi Akureyrar og tvo með Skautafélagi Reykjavíkur. Siggi er einnig leikjahæsti, markahæsti og stigahæsti leikmaður Íslandsmótsins frá upphafi en hann lék 400 leiki í meistaraflokki, skoraði 292 mörk, gaf 280 stoðsendingar og var með 572 stig. Hann var í sigurliði SR sem vann sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil árið 1998 og það var því við hæfi að Skautafélag Reykjavíkur tók þátt í heiðruninni og ahentu honum gjöf frá félaginu. Siggi vann fleiri Íslandsmeistaratitla en nokkur annar leikmaður í félagsliði á Íslandi í meistaraflokki karla en minnisvarða um alla titla Skautafélagsins var komið fyrir í Skautahöllinni við sama tilefni.
Treyjunúmer Sigga fryst hjá Skautafélagi Akureyrar
Við heiðrunina var fáni með númerinu 13, sem var treyjunúmerið hans Sigga, ásamt nafninu hans hengdur upp í Skautahöllinni til marks um ótrúlegan feril þessa afreksíþróttamanns. Treyjunúmerið hans er nú búið að frysta af félaginu sem þýðir að enginn leikmaður getur borið treyjunúmerið 13 í meistaraflokki karla héðan í frá. Börnin hans eru þó þau einu sem fá undantekningu á frystingunni en þau bera öll númerið hans í yngstu flokkum SA.
UMMÆLI