Þórsarar töpuðu gegn Keflavík með 12 stiga mun í Íþróttahöllinni á Akureyri í kvöld. Lokatölur 77-89 fyrir Suðurnesjamönnum.
Keflvíkingar mættu til leiks sem særð ljón enda hafði liðið tapað fimm leikjum í röð þegar kom að leiknum í kvöld og var þetta mikla körfuboltastórveldi í fallsæti fyrir leik kvöldsins.
Þórsarar hinsvegar mættu fullir sjálfstrausts eftir fjóra sigurleiki í röð og voru vel studdir af Mjölnismönnum, sem létu í sér heyra á pöllunum.
Leikurinn var jafn eftir fyrsta leikhluta en að honum loknum tóku gestirnir öll völd á vellinum, þó aðallega tveir leikmenn þeirra, þeir Amin Khalil Stevens og landsliðsleikstjórnandinn Hörður Axel Vilhjálmsson.
Þórsarar réðu lítið við þessa leikmenn og sóknarleikur heimamanna var heldur ekki jafn góður og hann hefur verið að undanförnu. Verðskuldaður sigur gestanna því staðreynd.
Stigaskor Þórs: George Beamon 28, Darrel Lewis 18/10 fráköst, Danero Thomas 17, Þröstur Leó Jóhannsson 6, Ingvi Rafn Ingvarsson 4, Tryggvi Snær Hlinason 4.
Stigaskor Keflavíkur: Amin Khalil Stevens 41/17 fráköst, Hörður Axel Vilhjálmsson 20/7 stoðsendingar, Reggie Dupree 12, Guðmundur Jónsson 8, Magnús Már Traustason 6, Daði Lár Jónsson 2.
UMMÆLI