NTC

Sigurbjörn Þorgeirsson kjörinn íþróttamaður Fjallabyggðar 2023

Sigurbjörn Þorgeirsson kjörinn íþróttamaður Fjallabyggðar 2023

Athöfn, þar sem besta og efnilegasta íþróttafólk Fjallabyggðar var verðlaunað fyrir frammistöðu sína á sl. ári, fór fram í Tjarnarborg í gærkvöldi að viðstöddu fjölmenni. Líkt og í rúman áratug eru það Kiwanisklúbburinn Skjöldur og Ungmenna- og íþróttasamband Fjallabyggðar sem standa að valinu, í samstarfi við íþróttafélög innan UÍF, sem og að athöfninni sjálfri.

Útnefnt var í tveimur aldursflokkum sem fyrr; 13 – 18 ára þar sem efnilegustu ungmennin af hvoru kyni voru útnefnd í hinum ýmsu greinum og síðan er valinn sá sem best hefur þótt standa sig í hverri grein hjá 19 ára og eldri og er það val óháð kyni. 9 af 14 íþróttafélögum í Fjallabyggð skiluðu inn tilnefningum í ár, og skýringin m.a. sú að ekki eru öll félögin með starfsemi í viðkomandi aldursflokkum.

Við athöfnina voru veittar tvær heiðursviðurkenningar. Annars vegar fékk Dagný Finnsdóttir viðurkenningu fyrir mikið og gott sjálfboðaliðastarf að íþróttamálum í Fjallabyggð undanfarna tvo áratugi og hins vegar fékk Gísli Marteinn Baldvinsson, blakari hjá KA, viðurkenningu fyrir frábæran árangur íþróttamanns sem uppalin er í íþróttahreyfingunni í Fjallabyggð og hefur náð eftirtektarverðum árangri í sinni grein á öðrum vettvangi.

Sigurbjörn Þorgeirsson, golfari frá Golfklúbbi Fjallabyggðar, varð fyrir valinu sem Íþróttamaður Fjallabyggðar árið 2023, en hann hefur verið kjörinn besti golfarinn í Fjallabyggð mörg undanfarin ár. Sigurbjörn tók þátt í fjölda móta, innanlands sem utan, á síðasta ári og náði frábærum árangri. Hann keppti m.a. með landsliði Íslands 50+ á Evrópumóti og varð þar meðal efstu manna og varð í þriðja sæti í Íslandsmóti kylfinga 50+ svo eitthvað sé nefnt.

Aðrir sem urðu fyrir valinu sem efnilegasta eða besta íþróttafólk hverrar greinar voru:

Badminton: Efnilegust Hrafnhildur Edda Ingvarsdóttir og Sebastian Amor Óskarsson.

Blak: Efnilegust Tinna Hjaltadóttir og Eiríkur Hrafn Baldvinsson. Blakari ársins Dagný Finnsdóttir.

Boccia: Bocciaspilari ársins Sigurjón Sigtryggsson.

Golf: Efnilegastur Sebastian Amor Óskarsson. Golfari ársins Sigurbjörn Þorgeirsson.

Hestamennska: Efnilegust Margrét Hlín Kristjánsdóttir og Viktor Smári Elínarson. Hestamaður ársins Viktoría Ösp Jóhannesdóttir.

Knattspyrna: Efnilegust Hólmfríður Dögg Magnúsdóttir og Jón Frímann Kjartansson. Knattspyrnumaður ársins Sævar Þór Fylkisson.

Kraftlyftingar: Kratftlyftingamaður ársins Hilmar Símonarson.

Skíði: Efnilegust Laufey Petra Þorgeirsdóttir og Matthías Kristinsson. Skíðamaður ársins Helgi Reynir Árnason.

Athöfnin tókst í alla staði vel undir öruggri stjórn Kristjáns Haukssonar, Grétars Arnar Sveinssonar og Evu Bjarkar Ómarsdóttur. Guðmundur Skarphéðinsson flutti ávarp fyrir hönd Kiwanisklúbbsins Skjaldar og Óskar Þórðarson fyrir hönd UÍF. Fjallabyggð bauð upp á glæsilegar veitingar og Siglósport og Siglufjarðar Apótek gáfu vinninga í happdrætti fyrir þau ungmenni sem mættu til athafnarinnar. 

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó