Sigþór Árni: Það sem fólkið í bænum hefur beðið eftir

KA og Akureyri mætast í KA heimilinu í dag klukkan 19:00 í baráttu um bæinn og toppsæti Grill66 deildarinnar í handbolta. Þetta er í fyrsta skipti sem liðin mætast eftir að KA sleit sig úr samstarfi Þórs og KA um Akureyri handboltafélag fyrr á þessu ári.

Kaffið heyrði í leikmönnum liðanna og fékk að vita hvernig stemningin væri hjá liðunum fyrir stórleikinn. Sigþór Árni Heimisson hefur verið einn af lykilmönnum KA liðsins í vetur og er markahæsti leikmaður liðsins ásamt Andra Snæ Stefánssyni með 17 mörk. Sigþór gekk til liðs við KA í sumar en undanfarin ár hefur hann spilað með Akureyri.

Sigþór spilaði með KA upp alla sína yngri flokka. Hann segir að eftir sambandsslitin hafi hugurinn leitað heim. „Ég er alinn upp á Brekkunni og hef unnið fyrir KA frá því að ég var í grunnskóla. Þar sem niðurstaðan varð sambandsslit þá var mín ákvörðun að spila undir merkjum KA og taka þátt í þeirri uppbyggingu sem svo margir eru til í að leggja hönd á plóg við.“ 

Það uppbyggingarverkefni sem er komið af stað, trúin sem fólk hefur á því og öll ánægjan og krafturinn á bakvið það er það sem ég valdi. Ég segi ekki að það hafi aldrei komið til greina að spila fyrir Akureyri áfram en til að fara yfir alla vinklana í þessu máli þyrfti sér pistil.“

KA menn hafa farið vel af stað í Grill66 deildinni í vetur og unnið fyrstu þrjá leiki sína. Hvernig er stemningin í liðinu fyrir grannaslaginn eftir þessa frábæru byrjun?. „Hún er mögnuð, ég hef trú á því að liðið sé vel stiltt þó að það komi ekki fyllilega í ljós fyrr en á hólminn er komið. Allt frá því að sambandsslitin urðu staðreynd er þetta það sem fólkið í bænum hefur beðið eftir.“

Sigþór segir að þeir sem séu heitastir yfir þessu öllu saman séu líklega frekar stuðningsmenn liðana út í bæ frekar en leikmenn liðanna.

Hann segir að undirbúningur fyrir þennan leik sé sá sami og fyrir önnur verkefni. Þessi leikur sé bara annar hluti í stóra verkefninu í vetur og undirbúningurinn sé efitr því. „Þó verður ekki hægt að líta framhjá því að þetta er nágrannaslagur og meiri spenna og hungur sem fylgir.“

Sigþór sem er fæddur árið 1993 lék með Akureyrarliðinu frá árinu 2010 þar til hann gekk til liðs við KA í sumar. Hann segist reyna að hugsa lítið um að hann sé að fara spila gegn gömlum liðsfélögum sínum og KA liðið einbeiti sér frekar að því að hugsa um sig sjálfa. „Þetta eru allt góðir drengir sem við erum að fara að mæta, það á ekki að skipta máli hvað gerist þessar 60 mínútur sem við sláumst inni á vellinum. Eftir leikinn ættu flestir að geta tekist í hendur og slegið í rass eins og venjan er. Þetta eru drengir sem maður eyddi tíma með nánast upp á dag í nokkur á svo ég hef fulla trú á því að við eigum allir eftir að geta sýnt fram á stórgóða skemmtun fyrir okkur sjálfa og áhorfendur.“

En er þetta stærsti leikur sem Sigþór hefur spilað á ferlinum til þessa? „Ég skelli í eitt yndislegt já við þessari spurningu,“  segir hann og bætir við að aldrei frá því að hann fór að taka þátt í meistaraflokkshandbolta á Akureyri hafi umfjöllun og áhugi verið jafnmikill í bænum.

Hvort sem þessi sambandsslit séu jákvæð eða neikvæð er fyrir hvern og einn að ákveða fyrir sig en ég það er ekkert nema jákvætt að þessir hlutir skipti fólk máli. Það mun sjást hve áhuginn er mikill í bænum í dag þegar KA heimilið verður kjaftfullt af fólki sem er komið til að horfa á handbolta.“

Leikur KA og Akureyrar hefst klukkan 19:00 í KA heimilinu. Húsið opnar klukkutíma fyrir leikinn og aðgangseyrir er 1000 krónur.

Sjá einnig:

Hafþór Már: Stærsti leikurinn á ferlinum

KA og Akureyri mætast í baráttunni um bæinn á morgun

 

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó