Sigrún Emelía tilnefnd til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands

Sigrún Emelía tilnefnd til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands

Sigrún Emelía Karlsdóttir, stúdent í líftækni við Háskólann á Akureyri, var í janúar tilnefnd til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands. Hennar verkefni var eitt af sex sem voru tilnefnd. Verkefnið ber heitið „One man’s trash is another man’s treasure“ og vann hún það í samstarfi við Liam F O M Adams O´Malley, nemanda í búvísindum við Landbúnaðarháskólann, undir leiðsögn Hreins Óskarssonar hjá Land og skógur. Verkefnið er styrkt af Nýsköpunarsjóði námsmanna.

Endurnýtanlegur úrgangur nýttur til bætingar lands

„Ég ákvað að rannsaka hvernig hægt er að bæta íslenskan jarðveg með þessum aðferðum þegar félagi minn frá Landbúnaðarháskólanum kom með þá hugmynd að sameina landbúnaðaraðferðir með líftækninni. Við vildum finna leið til þess að bæta íslenskan jarðveg með afurðum sem er oftast hreinlega hent og búa til áburð sem væri næringarríkur, léttur og skilvirkur,“ segir Sigrún Emelía um tilurð verkefnisins. Í verkefninu rannsaka þau hvernig hægt er að nota lífkol, viðarösku, lífrænan úrgang og afurðir Bokashi aðferðarinnar til að bæta íslenskan jarðveg til ræktunar.

Sigrún Emelía segir að markmiðið sé að takast á við áskoranir í landbúnaði þar sem áskorun felst í því að jarðvegur er of súr og vatnsheldinn. Rannsóknin leiddi í ljós að með notkun ofangreindra efna er hægt að bæta jarðveginn, minnka sýrustig og minnka vatnsheldni. „Svona nýsköpunarverkefni skipta miklu máli til að finna nýjar leiðir og fyrir mig persónulega var gagnlegt að kynnast vinnunni við nýsköpun og gefur alveg einstaka reynslu við að læra mismunandi rannsóknaraðferðir.“ Hún bætir við að gaman sé að niðurstöður rannsóknarinnar gefa vísbendingar um mikla möguleika á landbúnaðarlegum ávinningi með frekari rannsóknum og það gefi byr undir báða vængi.

Sigrún Emelía segir að verið sé að vinna að verkefninu áfram, styrkjasókn sé í fullum gangi og viljinn sé mikill til að halda áfram með þetta verkefni þar sem samverkandi lausnir líkt og þessar séu eftirsóttar. Þarna sé verið að vinna með vandamál tengt meðhöndlun lífræns úrgangs svo og eflingu í sjálfbærri landnýtingu.

Viðurkenningin dýrmæt

„Viðurkenningin sem felst svo í að vera tilnefnd til ofangreindra verðlauna er mér að sama skapi mjög dýrmæt þar sem í mínu námi, líkt og mörg, hef ég átt augnablik þar sem ég hafði litla trú á mér. Viðurkenningin hefur sýnt mér að vinnusemi og dugnaður gefur af sér og það margborgar sig að sækja í að taka þátt í nýsköpun og rannsóknarverkefnum.“

Sigrún Emelía, sem er á þriðja ári í fjarnámi á kjörsviðinu heilbrigðislíftækni, segist alltaf hafa haft rosalega gaman af nýsköpun og þetta sé í annað skiptið sem hún vinnur með Nýsköpunarsjóði námsmanna. „Námið við HA hefur nýst mér sérstaklega vel í þessi verkefni og hefur kennt mér að takast á við þau með rökhugsun og líftæknilegum aðferðum. Þá krefst svona verkefni góðrar skipulagningar og sjálfstæðrar vinnu sem fjarnámið hefur kennt mér. Ég er stoltur HA-ingur,“ segir hún að lokum.

Sambíó
Sambíó