Akureyringurinn Sigmundur Ernir Rúnarsson hefur verið ráðinn ritstjóri Fréttablaðsins og aðalritstjóri útgáfufélagsins Torgs ehf. Þetta kemur fram á vef Fréttablaðsins í dag.
Sigmundur tekur við starfinu í dag af Jóni Þórissyni sem hefur verið ritstjóri Fréttablaðsins frá haustinu 2019. Útgáfufélagið Torg rekur, auk Fréttablaðsins, DV, Markaðinn og sjónvarpsstöðina Hringbraut.
„Þetta er spennandi áskorun og ég þakka traustið sem mér er sýnt. Mitt verkefni verður að efla fréttaþjónustu og dagskrárgerð, hámarka samlegðaráhrif þeirra ólíku miðla sem útgáfufyrirtækið Torg rekur og gera þá að skemmtilegum og eftirsóknarverðum vinnustað,“ segir Sigmundur Ernir á vef Fréttablaðsins í dag.
Um Sigmund Erni segir á vef Fréttablaðsins:
Sigmundur Ernir er á meðal reynslumestu fjölmiðlamanna landsins, en hann hóf blaðamennsku á síðdegisblaðinu Vísi fyrir réttum 40 árum. Þaðan lá leiðin á Helgarpóstinn og síðar á Ríkissjónvarpið, en eftir stofnun Stöðvar 2 haustið 1986 varð hann landskunnur fréttaþulur í sjónvarpi um langt árabil. Hann varð ritstjóri DV 2001, fréttaritstjóri Fréttablaðsins 2004, fréttastjóri Stöðvar 2 2005 og settist svo á Alþingi fyrir Samfylkinguna í Norðausturkjördæmi frá 2009 til 2013. Að afloknum þingstörfum tók hann loks þátt í stofnun og stjórnun sjónvarpsstöðvarinnar Hringbrautar sem varð hluti af útgáfufélaginu Torgi snemma á síðasta ári. Þar að auki er Sigmundur Ernir kunnur af ritverkum sínum, en eftir hann liggur á þriðja tug bóka.
UMMÆLI