NTC

Sígild jólamyndasería 60 ára í dag

Sígild jólamyndasería 60 ára í dag

Á aðventu árið 2020 fjallaði Grenndargralið um ljósmynd sem margir þekkja. Kaffið fjallaði um málið á sínum tíma. Í dag 12. desember eru 60 ár liðin – ef marka má óformlega rannsókn Grenndargralsins – frá því að þessi sígilda jólamynd var fest á filmu í göngugötunni á Akureyri. Af því tilefni rifjum við upp umfjöllun Grenndargralsins.

Hver skyldi vera eftirminnilegasta íslenska ljósmyndin sem tekin er um jól? Mynd Kristjáns Hallgrímssonar ljósmyndara sem hann tók í miðbæ Akureyrar að kvöldlagi á sjöunda áratugnum kemur líklega upp í huga einhverra. Myndin sýnir mann með hatt sem stendur við bílinn sinn í snævi þaktri göngugötunni. Fáir eru á ferli og friður ríkir. Andstæðurnar leyna sér ekki í ljósmyndinni. Hvít snjófölin og birta jólaljósanna er sem tákn um gleði og kærleik en myndin er jafnframt sveipuð depurð og einmanaleika. Maðurinn með hattinn er einn á ferð í skammdeginu og það eru jól. Fátt stingur meira í hjartastað en villuráfandi sál á hátíð ljóss og friðar.

Hver ætli sagan sé á bak við ljósmyndina? Grenndargralið leitaði álits Harðar Geirssonar safnvarðar ljósmyndadeildar Minjasafnsins á Akureyri. Að sögn Harðar tók Kristján myndina árið 1962. Ólíkt því sem einhverjir kunna að halda segir Hörður ýmislegt benda til þess að Kristján hafi komið myndavélinni fyrir á þrífæti og að um uppstillingu sé að ræða. Hér sé ekki á ferðinni tækifærismynd heldur myndataka, gerð með vitund og aðstoð mannsins með hattinn og fólksins sem stendur við búðargluggann. Kannski er maðurinn með hattinn ekki svo einsamall eftir allt.

Grenndargralið minnist þess að hafa fyrir margt löngu séð ljósmyndina í gömlu dagblaði. Eftir samtalið við Hörð var forvitnin vakin. Ef myndin er tekin árið 1962, er þá hugsanlegt að hún hafi birst í dagblaði í desember það ár? Og ef svo, geymir dagblaðið þá kannski einhverjar frekari upplýsingar um myndina? Grenndargralið fór á stúfana og fletti í gegnum dagblöð sem gefin voru út á Akureyri á þessum tíma. Fljótlega hljóp á snærið því á forsíðu Íslendings föstudaginn 14. desember 1962 blasir myndin við með grein sem ber yfirskriftina Fögur jólaskreyting í bænum.

En þar með er ekki öll sagan sögð. Á öðrum stað í blaðinu er mynd sem líkir mjög til ljósmyndarinnar sem hér er til umfjöllunar. Sýnir hún einnig jólaskreytingar í myrkvuðum bænum – Jólaskreyting á Oddeyri. Þegar myndunum tveimur er flett upp á síðunni sarpur.is kemur í ljós að fleiri myndir hafa verið teknar í miðbæ Akureyrar við þetta sama tækifæri. Svo virðist sem Kristján hafi farið milli staða og tekið myndir, fest á filmu nokkurs konar myndaseríu og gert það á þeim tíma sólarhringsins þegar bæjarbúar héldu sig heima við (myndir úr myndaseríunni má sjá hér).

Rúsínan í pylsuendanum er myndatextinn sem fylgir Oddeyrar-myndinni en þar segir: „Jólaskreytingar í bænum eru í fullum gangi og hafa aldrei verið meiri en  nú. Kr. Hallgr. tók þessa mynd á Oddeyri í fyrrakvöld.“ Þar með er það skjalfest. Myndin sem Kristján Hallgrímsson ljósmyndari tók í miðbæ Akureyrar að kvöldlagi á sjöunda áratugnum af manninum með hattinn var samkvæmt myndatextanum tekin að kvöldi miðvikudagsins 12. desember árið 1962. Eftir stendur spurningin – hver er maðurinn með hattinn?

Heimildir:

Fögur jólaskreyting í bænum. (1962, 14. desember). Íslendingur, bls. 1.

Jólaskreyting á Oddeyri. (1962, 14. desember). Íslendingur 2, bls. 1

Mynd: Hallgrímur Einarsson. (1961-1965). Jól í miðbæ Akureyrar. Sarpur – menningarsögulegt gagnasafn. [Myndin er frá Minjasafninu á Akureyri] Fengin af https://www.sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=1630317

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó