NTC

She Runs – Efling á íþróttastarfi stúlkna

She Runs – Efling á íþróttastarfi stúlkna

Okkur bauðst að taka þátt í alþjóðlegri ráðstefnu á vegum Alþjóða skólaíþróttasambandsins sem var haldin 11.-16. mars í París. Á Íslandi voru valdar 20 stúlkur sem hafa mikla leiðtogahæfni og áhuga fyrir því að efla íþróttastarf stúlkna innan síns framhaldsskóla. Í okkar tilfelli fengum við að fara til Parísar með Fjölbrautarskólanum í Garðabæ og Borgarholtsskóla. Þetta var risastór viðburður þar sem gert var ráð fyrir 2000 frönskum stúlkum og 500 stúlkum alls staðar að úr heiminum. Svona fór viðburðinn fram:

Fyrsti dagurinn fór í það að skoða París, hvað borgin hefur upp á að bjóða og koma okkur fyrir.

Á degi tvö hófst verkefnið sjálft en þá var okkur skipt í lið með öðrum löndum og við fórum í ratleik um alla Parísarborg. Í ratleiknum voru helstu kennileiti Parísar skoðuð og skemmtilegar þrautir leystar. Um kvöldið var svokallað „Cultural Night“ en þá kynnti hvert og eitt land menningu sína, íþróttir og þess konar.

Þriðja daginn voru allskonar þrautir og íþróttir sem hægt var að prófa, til að sýna fram á að allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi þegar kemur að hreyfingu. Þar á meðal var box, hjólaskautar, silent jóga, róður og margt fleira. Einnig var þraut þar sem á staðnum voru fimm merkar konur sem hafa haft mikil áhrif á sögu kvenna í gegnum tíðina, og þurftum við að geta hvaða konur þær væru að leika. Á meðal merku kvennanna var Marie Curie og Nadia Comăneci. Seinna um daginn bættust við 2000 franskar stelpur frá París og þær hlupu með okkur í 3 km hlaupi.

Fjórða daginn fórum við og hlustuðum á TEDtalk hjá fjórum konum sem töluðu um sinn árangur bæði sem keppendur í íþróttum og sem skipuleggjendur íþróttaviðburða. Þær sem héldu fyrirlestur voru Paula Radcliffe sem á heimsmetið í maraþoni kvenna, Valentina Marchei sem er tvöfaldur ólympíumeistari í listhlaupi á skautum, Birgitta Kervinen sem er finnsk kona sem hefur unnið mikið bakvið tjöldin við að skipuleggja íþróttaviðburði og hefur unnið til verðlauna fyrir störf sín. Og síðust en ekki síst var hún Laurence Fischer sem er heimsmeistari í karate. Allar sögðu þær frá sögu sinni og hvöttu okkur að vera leiðtogar í okkar lífi og vera óhræddar við að prófa nýja hluti. Um kvöldið var svo farewell party þar sem var mjög gaman og mikið fjör (mikið dansað!!).

Fimmta og seinasta daginn fóru allir heim nema Anna-María úr FG og Cristina úr MA, en þær voru valdar í svokallaða verkefni sem heitir „Design Sprint“. Í þessu verkefni voru þær ásamt 38 öðrum stelpum að skipuleggja íþróttaviðburð í þeirra heimabyggð. Í framhaldinu af því ætlum við allar í MA í samstarfi við FG og Borgó að halda íþróttaviðburð á næstu önn.

Eftir að hafa borðað McDonald‘s í öll mál í sirka viku þar sem á hostelinu fengum við bara hrísgrjón með salati og gulrótasúpu sem líkja má við klór, erum við þakklátar fyrir að hafa fengið þetta frábæra tækifæri til að efla okkur sem íþróttafólk og leiðtoga. Við erum spenntar fyrir því að miðla okkar þekkingu áfram í samfélaginu.

Hvetjum alla til þess að grípa þau tækifæri sem bjóðast í lífinu vegna þess að við sjáum alls ekki eftir því að hafa tekið af skarið og munum aldrei gleyma þessari upplifun.

Hjartans kveðjur,

Andrea 1.A, Álfrún 2.U, Brynja 2.VX, Cristina 1. A, Hafrún 2.VX, Íris 2.F og Ólöf 1.X.

VG

UMMÆLI

Sambíó