NTC

Sextug og hvað svo?

Sextug og hvað svo?

Fyrir skömmu hlotnaðist mér að ná þeim áfanga í lífinu að hafa dvalið á jarðkúlunni í 60 ár. Það gerðist í sjálfu sér án nokkura sérstakra flugeldasýninga, ekkert breyttist- tíminn einfaldlega leið eins og hann hefur alltaf gert. Ég vaknaði að morgni og mér leið nákvæmlega eins og daginn á undan. Það er hinsvegar ekkert nema sjálfsagt að fagna því kraftaverki sem lífið er, ekki bara á afmælisdögum heldur alla daga og kannski sérstaklega á tímamótum. Borða þá köku, drekka kampavín, halda partý, dansa eða eins og í mínu afmæli,- fara í leiki í garðinum eins og gert var í afmælum bernsku minnar, drekka gos úr glerflöskum og borða kökur með miklum þeyttum rjóma. Lífið er einfaldlega stórkostlegt með öllum sínum tilbrigðum, það er kröftugt og ófyrirsjáanlegt og skrítið og erfitt. Og þó að við vitum það eitt þegar við skjótumst í heiminn að lífinu lýkur, þá liggur það í eðli okkar að vilja lifa eins lengi og okkur er unnt og já,-fagna hverjum degi sem það tekst.

Að vera sextugur er svo sem ekki neitt rosalega hár aldur,-ekki í mínum eigin huga en við vitum að aldur er afstæður. Og sannarlega eru á mér og mörgum mínum jafnöldrum allskonar aldursmerki.  Sum þeirra eru sjáanleg s.s. mýkra vaxtarlag og grái kollurinn, annað líkamlegt eins nýtt svefnmynstur eða aukinn fjöldi af gleraugum og svo eru það allskyns einkenni sem tengjast huganum, andlegri getu, lífsreynslu og visku sem kemur með hækkandi aldri,-nú eða alls ekki. Fyrir nokkrum árum hitti ég jafnaldra mína á skemmtun og þá fannst mér eitt af þessum einkennum vera það að margar konur voru með skó í poka. Ekki spariskó eins og þegar við fórum í dansskólann heldur þægilega skó til að dansa á. Þær spörkuðu af sér hælunum eftir borðhaldið og af visku og lífsreynslu skelltu þær sér í íþróttaskó með mjúkum sóla og lágum hæl. Og ekki eingöngu vegna þess að líkaminn er síður tilbúinn í að prika um á óhollum skófatnaði heldur er hugurinn hættur að hafa tíma fyrir vitleysisgang eins og að eyða dögunum í að finna til í fótunum. Þægindi eru lífsgæði og þægindi skipta meira máli eftir því sem árin færast yfir.

Liðnar eru tjaldútilegur æsku minnar, fötin mega ekki þrengja að mér og spangir í brjóstahöldum eða támjóir skór eru úti, stólar þurfa að styðja við bakið og tónleikar þurfa helst að vera síðdegis en ekki að kvöldi. Já og letrið í símanum og á matseðlunum má ekki vera smátt. Og öllum þessum nýju kröfum sextugs líkama með gigtarsjúkdóm og kvíðatilhneigingu þarf hugurinn minn að venjast. Og það  í ofanálag hugur sem hefur hingað til ferðast með athyglisbrest og töluverða ofvirkni í farteskinu. Hugur sem er á hörkuflugi og alls ekki tilbúinn til að hægja á. Þetta vill stundum verða hörð barátta.

Þetta kjarnar kannski það sem ég trúi að sé okkur sextugum og eldri sé mikilvægara en flest:

Að vera sveigjanleg og mæta því sem lífið kýs að henda í okkur með eins mikilli mýkt og af eins miklum húmor og okkur er unnt.  Ég finn alveg tilhneiginguna til að vera gagnrýnni en áður á nýjar leiðir í bæði eiginlegri og óeiginlegri merkingu. Ég þarf að standast freistinguna að festast í mjúku öryggi þess að gera og hugsa eins og ég hef alltaf gert og það kostar svolítið meiri átök en áður að meðtaka nýja hluti og nýja hugsun. Það er nefnilega ekki það sama að lifa og vera á lífi og við lifum mest á meðan við lærum nýja hluti.

Þetta snýst auðvitað ekki bara um þægindi. Ég þarf að standast þá freistingu að fara í hlutlausa gírinn, að hætta að nenna að brenna og berjast fyrir málefnum sem ég trúi að skipti máli. Sextugar konur sem „nöldra“, skrifa í vefmiðla, gera formlegar athugasemdir og senda inn kvartanir eru mjög auðveldlega stimplaðar sem leiðinlegar og erfiðar kellingar og hver vill vera erfiður? Eða kelling? Á maður ekki bara að vera jákvæður?

Svarið er jú, sannarlega er frábært að vera jákvæður og benda á það sem vel er gert og það er jafn mikilvægt að gagnrýna og benda á það sem betur má fara. Það er svo mörg mistök sem enn þarf að leiðrétta í veröldinni.

Ungar konur í dag eru öflugar og beinskeittar og stundum finnst mér þær vera svo „reiðar“ að ég verð smeyk en ég dáist samt mikið að kjarki þeirra og einurð. Hin sextuga kona sem ég er, vil sjá hófstillta og skynsamlega umræðu (lesist að enginn sé reiður) en um leið veit ég að þannig umræða skilar ekki alltaf tilætluðum árangri. Og þó ég geti ekki nema lítið brotabrot af öllu því sem mig langar til og hef áhuga á að segja og gera þá hef ég val um að reyna að vera „erfið“ í þágu góðs málstaðar en ekki gamalla gilda og úreltra.

Ég nýt góðrar aðstoðar unga fólksins sem ég er svo heppin að fá að ferðast með í gegnum lífið. Ég læri af þeim fordómaleysi og fjölbreytileika. Ég læri hrós og virðingu, að maður eigi að láta draumana sína rætast og alls konar góða hluti. Og svo getum við jafnaldrarnir vonandi skilað einhverju til baka. Það er hellingur í reynslupokanum okkar sem er sannarlega þess virði að miðla.

Það er frábært að vera sextug. Ég fæ enn að vera svolítið ung í augum elstu kynslóðarinnar og þótt að ungt fólk sjái í okkur gamlingja með grátt hár og kúlumaga, þá sjáum við jafnaldrarnir ennþá hvort í öðru strákana og stelpurnar sem við einu sinni vorum og líklega verðum alltaf í eigin spegilmynd. Ég ætla í það minnsta að vera óþekk og erfið ef mér finnst þess þurfa og sættast að lokum við sjálfa mig alveg eins og ég er.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó