Setja upp myndlistarsýningu í minningu Bryndísar Arnardóttur

Setja upp myndlistarsýningu í minningu Bryndísar Arnardóttur

Myndlistarhópurinn Gellur sem mála í bílskúr varð til á námskeiðinu „Fræðsla í formi og lit“ hjá Bryndísi Arnardóttur, Billu, myndlistarkonu á Akureyri sem lést árið 2022, langt fyrir aldur fram. Fram kom sú hugmynd hjá hópnum að setja upp myndlistarsýningu í minningu Billu og fá einnig til liðs fleiri nemendur sem höfðu sótt sama námskeið hjá henni. Billa var menntaður myndlistarmaður og með meistaragráðu í kennslufræðum listgreina. Hún stofnaði m.a. Listfræðsluna, myndlistarskóla fyrir almenning og var frumkvöðull í að fá viðurkenningu á einingarbæru myndlistarnámi með námskeiðinu.

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson var á ferð á Akureyri á dögunum og þáði hann heimboð á heimili myndlistarmannsins Guðmundar Ármanns þar sem nokkrar gellur og fleiri úr stórum hópi nemenda Billu tók einnig á móti honum. Þar fékk forsetinn að heyra af áformum hópsins um sýninguna sem verður opnuð helgina 10. – 12. nóvember næstkomandi, en alls eru um 30 manns með myndir á sýningunni. Við þessi tímamót mun fjölskylda Billu setja á laggirnar styrktarsjóð til minningar um Billu og mun helmingur af öllum seldum verkum á sýningunni renna í þennan sjóð. Barnabarn Billu, Ronja Axelsdóttir van de Ven sagði forsetanum frá þessum áformum en hugmyndin með sjóðnum er að styrkja sérstaklega konur sem vilja fara í formlegt nám í sjónlistum. Forsetinn var því formlega sá fyrsti sem fékk kynningu á sjóðnum og tilgangi hans.

Listrænn stjórnandi sýningarinnar er Guðmundur Ármann myndlistarmaður en Billa og Guðmundur Ármann voru samstarfsfélagar og vinir og áttu m.a. stóran þátt í að byggja upp öfluga myndlistardeild við Verkmenntaskólann á Akureyri auk þess sem mikill fjöldi áhugafólks um myndlist hefur sótt hjá þeim námskeið í gegnum tíðina.

„Stundin var indæl og nutu bæði forsetinn og aðrir samverustundar og spjalls,“ segir í tilkynningu.

Norðurorka og KEA styðja  við uppsetningu sýningarinnar og eru allir hvattir til að koma, skoða og taka þátt. Sýningin verður sett á tveimur stöðum, í Deiglunni og í Mjólkurbúðinni og verður eins og áður sagði opin dagana 10. – 12. nóvember næstkomandi.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó