Gæludýr.is

Sesselía Ólafs er bæjarlistamaður Akureyrar 2023Ljósmynd: Jón Tómas Einarsson/Akureyri.is

Sesselía Ólafs er bæjarlistamaður Akureyrar 2023

Sesselía Ólafs er bæjarlistamaður Akureyrar árið 2023. Þetta var tilkynnt í rafrænni útsendingu Vorkomu Akureyrarbæjar sem hófst á samfélagsmiðlum kl. 17 í dag, sumardaginn fyrsta.

Á vef Akureyrarbæjar segir: Sesselía fæddist árið 1987 og ólst upp á Akureyri og í Hörgárdal. Hún hefur stundað tónlist, leiklist og ritlist síðan hún lauk námi í leikstjórn og leiklist í London árið 2012. Sesselía hefur leikið í ýmsum sviðsverkum og kvikmyndum, hérlendis og erlendis, en hún hefur einnig samið handrit fyrir og leikstýrt verðlaunastuttmyndunum Umskipti og Betur sjá augu. Hún er annar stofnenda gríndúettsins Vandræðaskálda og átti þátt í stofnun leikhópsins Umskiptinga, en undir þeirra formerkjum hefur hún samið handrit, lög og ljóð. Haustið 2021 gaf Sesselía út pastelverkið og ljóðabókina Leiðslu og undanfarið ár hefur hún unnið að handriti fræðilega tónlistaruppistandsverksins Móðir, kona, meyja. Bæjarlistamaður Akureyrar 2023 mun verja starfslaunatímabilinu í að semja og útsetja tónlist verksins, ásamt því að ljúka fyrsta uppkasti fantasíuskáldsögunnar Silfurberg. Þá mun hún vinna að verkefninu List getur List, en lokaafurð þess verkefnis verður sýnt á Akureyrarvöku í haust.

Að þessu sinni sóttu átta einstaklingar um listamannalaun, fjórir karlmenn og fjórar konur. Í faghópnum sátu Margrét Jónsdóttir, Daníel Þorsteinsson og Hólmkell Hreinsson. Við val á bæjarlistamanni var fyrst og fremst horft til þriggja meginþátta: þess sem listamaðurinn hefur unnið að á undanförnum árum, þeirra verkefna sem listamaðurinn ætlar að sinna á tímabilinu og auðga þar með menningarlíf bæjarins og þess að hann búi og starfi á Akureyri.

Viðurkenningar vegna mannréttindamála eru í þremur flokkum. Stofnunin sem hlaut viðurkenningu að þessu sinni er Amtsbókasafnið á Akureyri, Femínistafélag Menntaskólans á Akureyri, FemMA, hlýtur viðurkenningu í flokki félagasamtaka og sá einstaklingur sem hlýtur mannréttindaviðurkenningu Akureyrarbæjar 2023 er Fayrouz Nouh fyrir að miðla reynslu sinni sem flóttamaður, fræða, rannsaka og opna umræðu um menningarlegar hindranir flóttakvenna.

Heiðursviðurkenningu Menningarsjóðs Akureyrar hlýtur að þessu sinni Óskar Pétursson söngvari fyrir langan og farsælan feril og mikilsvert framlag til menningarmála á Akureyri.

Sumarstyrk ungra listamanna á aldrinum 18-25 ára hlýtur Egill Andrason en styrkurinn er til þess ætlaður að ungur listamaður geti helgað sig sköpun og æfingum þegar hlé er gert á námi yfir sumartímann. Egill er fjöllistamaður og sviðshöfundur sem leggur áherslu á tónlist, framkomu og skrif.

Þess er loks að geta að Menningarsjóður Akureyrar styrkir árlega ýmis menningarverkefni og í ár voru veittir 18 verkefnastyrkir að upphæð samtals 4.190.000 kr. og gerðir 3 samstarfssamningar að andvirði 750.000 kr. 

Nánari upplýsingar um viðurkenningarhafa og styrkveitingar er að finna í skjölunum hér að neðan.

Hér má horfa á Vorkomu Akureyrarbæjar 2023 í heild sinni.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó