Aðventan er skollin á með tilheyrandi ys og þys. Desember er jafnan annasamur tími hjá fólki sem starfar við verslun. Þrátt fyrir Covid-ástand mun sjálfsagt nú sem fyrr mæða mikið á afgreiðslufólki verslana allt þar til hátíð ljóss og friðar gengur í garð.
Blaðamaður Íslendings leit inn í Blómabúðina Laufás í Hafnarstræti á aðventu 1974. Þar hitti hann fyrir afgreiðslustúlkuna Kolbrúnu Ingu Sæmundsdóttur sem svaraði spurningu hans um það hvernig hún færi að því að undirbúa jólin samhliða því að vinna fullan starfsdag.
–
Sérstök stemming og galsi þrátt fyrir sára fætur.
Minn jólaundirbúningur fer aðallega fram á síðkvöldum og nóttunni. Annars lofa ég sjálfri mér á hverju hausti, að í ár skuli ég undirbúa jólin í nóvember. Enn sem komið er hefur þetta aldrei orðið meira en svikið loforð. Ég baka að vísu snemma smákökur, steiki laufabrauð og geri jólasælgæti með börnunum. En ég tek það ekki nærri mér þó ekki sé skúrað út í hvert horn og börnin ekki klædd nýjum fötum innst sem yst. Ef ég ætlaði mér að baka, skúra, sauma og föndra fyrir jólin með allri vinnunni, er ég hrædd um að lítið væri eftir af mér um jól. Maður er nógu þreyttur samt, þegar blessuð jólin koma, sagði Kolbrún.
Aðspurð sagði hún, að sér þætti annars gaman að vinna í búð fyrir jólin. Það fylgdi því sérstök stemming og galsi þrátt fyrir þreytta og sára fætur.
Það er Iíka einhvern veginn öðru vísi að afgreiða fólk, sem er að kaupa gjafir til jólanna. Sérstaklega er gaman að afgreiða lítil börn og gamalmenni. Börnin Ieita oft vandlega í búðinni hjá okkur, sérstaklega þau sem hafa takmörkuð peningaráð, og andlitin á þeim ljóma þegar þau detta loks niður á eitthvað sem þeim líkar, heldur Kolbrún áfram. En þrátt fyrir allt kvíði ég alltaf svolítið fyrir hverri jólatörn.
Síðan vék Kolbrún að því að afgreiðslufólkið í blómabúð yrði sérstaklega mikið vart við jólaverslunina. Þá þarf að búa til aðventukransa, pakka jólaskrauti í poka, skreyta greni og ótal margt annað. Hefst þessi undirbúningur gjarnan um miðjan nóvember. Jólaösinni lýkur síðan ekki fyrr en um kl. 3 á aðfangadag, en þá er verslunin búin að senda út síðustu pantanirnar.
Þegar ég kem heim á aðfangadag eru börnin mín búin að skreyta jólatréð og eina sem eftir er að gera er að elda matinn. Ég geri það alltaf sjálf, en að því loknu get ég loksins sest niður. Því miður eru jóladagarnir allt of fljótir að Iíða og þegar maður mætir til vinnu á þriðja í jólum get ég ekki komist hjá því að spyrja sjálfa mig, hvort öll þessi læti fyrir jólin séu virkilega þess virði að þau séu lögð á sig, sagði Kolbrún að lokum.
Heimildir:
Sérstök stemming og galsi þrátt fyrir sára fætur. (1974, 13, desember). Íslendingur, bls. 12.
Samsett mynd:
a) Gunnlaugur P. Kristinsson. (1964-1966). Blómabúðin Laufás. Sarpur – menningarsögulegt gagnasafn. [Myndin er frá Minjasafninu á Akureyri] Fengin af https://www.sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=1530442
b) Sérstök stemming og galsi þrátt fyrir sára fætur. (1974, 13, desember). Íslendingur, bls 12. [Kolbrún Inga Sæmundsdóttir við afgreiðsluborðið í blómabúðinni Laufás]
UMMÆLI