Seinni hluti Braggaparksins að klárast: „Margir krakkar að reyna að sannfæra foreldra sína að flytja norður“

Seinni hluti Braggaparksins að klárast: „Margir krakkar að reyna að sannfæra foreldra sína að flytja norður“

Braggaparkið, hjólabrettaaðstaða á Akureyri, opnaði í maí á þessu ári. Eiki Helgason, sem hefur séð um aðstöðuna segir að viðtökurnar hafi verið gríðarlega góðar. Nú sé seinni hluti aðstöðunnar að klárast og því verði hún fljótlega tvöfalt stærri.

Eiki segir að seinni hlutinn sé undirlagður af palli sem nefnist „skál“ í hjólabrettaheiminum. Þetta verður eina skálin á landinu þegar hún er tilbúin og einnig einn stærsti pallur sem hefur verið smíðaður hér á landi.

„Við hönnuðum þessa skál þannig svo hún hentar öllum, bæði byrjendum og lengra komnum þar sem það er hægt að velja sér hæð sem hentar hverjum og einum og unnið sig upp, þannig að allir ættu að geta fundið sér eitthvað við hæfi,“ segir Eiki í spjalli við Kaffið.

Hann segir að skálin verði klárlega aðdráttarafl fyrir allt áhugafólk um hjólabretti og hlaupahjól á landinu.

„Þetta mun draga alla skeitara og skootera landsins í reglulegar ferðir til Akureyrar. Það var ein skál fyrir sunnan fyrir mörgum árum og er söknuðurinn mikill hjá skeiturum. Nú þegar hefur alveg hellingur mætt norður til að prófa parkið og mér heyrist að margir krakkar séu að reyna sannfæra foreldra sína til að flytja bara norður,“ segir Eiki.

Hann segir að það hafi ekki verið einfalt að smíða skálina og að miklar pælingar hafi farið í vinnuna. Hann hafi þó fengið mikla aðstoð í gegnum sjálfboðavinnu einstaklinga og fyrir það sé hann þakklátur.

Eiki hefur unnið að opnun aðstöðunnar frá því snemma árið 2019. Hann segir að nú þegar aðstaðan hefur verið opin í nokkra mánuði fari ekkert á milli mála að það hafi sárvantað slíka aðstöðu í bæinn.

Braggaparkið opnaði 25. maí 2020

„Að geta komist í inniaðstöðu fyrir þessar íþróttir gjörbreytir öllu fyrir þessa krakka og fólk sem er að stunda þetta. Hingað til hefur bara verið hægt að stunda þetta yfir sumarmánuðina og þá eingöngu þegar það er þurrt úti og lítill vindur. Svo er eg nokkuð viss um að þetta sé eina afþreyingin sem er í boði í bænum fyrir 16 ára og eldri sem er ekki djamm tengd og hægt er að komast í seint á kvöldin og það hefur sko sannarlega verið vel nýtt.“

Hann segist spenntur fyrir framhaldinu hjá Braggaparkinu og þá sérstaklega fyrir opnun seinni hlutans þar sem skálin verður.

Braggaparkið er staðsett í gömlu bröggunum í Laufásgötu 1 og er opið alla daga á milli klukkan 12.00 – 19.00. Aðstaðan er fyrir 6 ára og eldri. Dagurinn kostar 1000kr og svo er hægt að kaupa árskort/hálfsárs/mánaðarkort inná: https://rosenborg.felog.is/. Einstaklingar með fullorðinskort (16+) hafa aðgang að húsnæðinu allan sólarhringinn.

„Við höfum verið með námskeið sem hafa verið mjög vinsæl og planið er að byrja aftur með þau í október þannig að það er um að gera að fylgjast vel með inná Braggapark facebook síðunni og Instagram til að vita hvað er að gerast hjá okkur,“ segir Eiki að lokum.

https://www.instagram.com/p/CEE60TOpzk_/?utm_source=ig_web_copy_link
Sambíó

UMMÆLI

Sambíó