Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Akureyrar, skorar á ríkisstjórn Íslands og Isavia að setja kraft í uppbyggingu Akureyrarflugvallar í grein sem birtist í Morgunblaðinu í gær.
Hún segir að uppbygging vallarins sé mikilvæg til þess að opna aðra alvörugátt inn í landið. Ljóst sé að ferðafólki sem kemur til Íslands muni fækka umtalsvert á næstu mánuðum eftir gjaldþrot WOW. Þetta muni hafa veruleg áhrif á landsbyggðinni þar sem fyrirtæki eru viðkvæm fyrir sveiflum.
„Það þarf fleiri gáttir að Íslandi og rökrétt er við núverandi aðstæður í flugmálum að ráðist verði í það án tafar að stækka flugstöðina á Akureyri og stuðla á sama tíma að hagstæðum aðstæðum til millilandaflugs til og frá Akureyri. Það er fljótleg og í raun hagkvæm leið til að milda áhrifin af fyrirsjáanlegum samdrætti í ferðaþjónustunni sem er nú um stundir stærsti atvinnuvegur þjóðarinnar. Stuðningur við markaðssetningu á nýjum flugleiðum í gegnum Flugþróunarsjóð og jöfnun eldsneytiskostnaðar skipta þar höfuðmáli. Þar fyrir utan er það óumflýjanlegt öryggisatriði að það séu fleiri en ein leið greiðfærar til og frá landinu ef Keflavíkurflugvöllur teppist til að mynda vegna náttúruhamfara,“ skrifar Ásthildur í Morgunblaðinu.
Hún segir að Akureyrarfluvöllur sé ekki byggður til þess að taka á móti hátt í 200 ferðamönnum í einu og þar skapist fljótt ófremdarástand vegna þrengsla.
UMMÆLI