Segir sagan okkur hvernig við sigrum Króata?

Frá vinstri: Guðmundur Benediktsson, Albert Guðmundsson, Albert „eldri“ Guðmundsson og Ingi Björn Albertsson.

Brynjar Karl Óttarsson skrifar:

Við vitum að við erum ekki í bestu stöðunni í riðlinum en við höfum engu að tapa. Við munum fórna öllu í þessum leik sagði Heimir Hallgrímsson landsliðsþjálfari í viðtali fyrir leikinn stóra gegn Króatíu á HM í Rússlandi. Orð að sönnu hjá þjálfaranum. Spurningin er hins vegar hverju skal fórna, á hvað skal veðja. Sjálfskipaðir „knattspyrnusérfræðingar“ koma nú í hrönnum fram á sjónarsviðið í aðdraganda lokaleiksins í riðlinum og sitt sýnist hverjum um hvernig best sé að mæta hinu ógnarsterka liði Króata. Sumir kjósa hefðbundna liðsuppstillingu og óbreytt leikkerfi, reynslu og þekktar stærðir meðan aðrir benda á nauðsyn þess að koma með eitthvað nýtt og freista þess að koma Króötunum í opna skjöldu. Grenndargralið heldur sig til hlés þegar kemur að taktík íslenska liðsins og leggur allt sitt traust á Heimi og hans teymi í Rússlandi. Þó er rétt að benda á athyglisverða tölfræði úr sögunni sem mögulega felur í sér lykilinn að góðum árangri á þriðjudaginn.

Á landsliðsferli sínum um miðja 20. öldina skoraði Albert Guðmundsson tvö mörk. Fyrra landsliðsmarkið skoraði hann í leik gegn Noregi sumarið 1947. Markið var fyrsta mark íslenska liðsins í leiknum. Sonur Alberts, Ingi Björn skoraði tvö mörk með landsliðinu rétt eins og faðir hans. Ingi Björn skoraði gegn Norður-Írum í júní árið 1977 og rúmum tveimur vikum síðar skoraði hann í leik gegn Norðmönnum. Bæði mörkin voru fyrstu mörk íslenska liðsins í leikjunum tveimur. Tölfræðin er af sama meiði hjá tengdasyni Inga Björns, Guðmundi Benediktssyni. Tvö mörk skoruð fyrir íslenska landsliðið. Viti menn, fyrra landsliðsmark Guðmundar var fyrsta og jafnframt eina mark íslenska landsliðsins þegar liðið bar sigurorð af Sameinuðu arabísku furstadæmunum sumarið 1994.

Fyrirsögn Morgunblaðsins í júní 1977 eftir að Íslendingar sigruðu Norður-Íra með marki Inga Björns Albertssonar.

Með landsliðinu okkar í Rússlandi er ungur og efnilegur leikmaður sem hefur spilað fimm landsleiki. Hann heitir Albert Guðmundsson, 21 árs gamall leikmaður PSV Eindhoven og líkt og forfeður hans veit hann hvar markið er að finna. Að öðrum kosti væri hann ekki hluti af sterkum leikmannahópi Íslands sem eygir nú tækifæri á að komast í 16 liða úrslit á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu. Albert, sem enn hefur ekkert komið við sögu í leikjunum tveimur gegn Argentínu og Nígeríu, jafnar landsleikjafjölda langafa síns og alnafna ef hann kemur við sögu í leiknum gegn Króatíu. Hann á enn lengra í land með að ná afa sínum Inga Birni og föður sínum Guðmundi. Móðir Alberts, Kristbjörg Ingadóttir, spilaði jafnframt á sínum tíma með kvennalandsliðinu. Þegar kemur að markaskorun fyrir landsliðið hefur hann hins vegar vinninginn. Í leikjunum fimm hefur hann skorað þrjú mörk, öll í sama leiknum gegn Indónesíu. Og rétt eins og í tilfelli föðurins, afans og langafans var fyrsta mark hins unga Alberts Guðmundssonar fyrsta mark íslenska landsliðsins í þeim leik. Af þessum fimm landsleikjum sem nefndir hafa verið til sögunnar vannst sigur í fjórum.

Er Albert Guðmundsson trompið sem Heimir á upp í erminni? Er hann óvænta útspilið sem Króatar þekkja ekki frá fyrri viðureignum þjóðanna á knattspyrnuvellinum síðustu ár? Kannski. Við þekkjum mörg dæmi þess að hæfileikar gangi í erfðir. Við vitum jafnframt að sagan á það til að endurtaka sig. Ef við bætum svo líkindum við erum við mögulega komin með baneitraða blöndu sem jafnvel Króatar hafa engin mótefni gegn. Heimir hefur engu að tapa og verður að færa fórnir til að eiga möguleika á sæti í 16 liða úrslitum. Með því að senda soninn inn á völlinn fyrr en síðar í leiknum getur hann aukið líkurnar á íslensku marki á undan króatísku og þar með íslenskum sigri. Svo segir sagan.

Greinin birtist upphaflega á heimasíðu Grenndargralsins.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó