Heimir Örn Árnason, forseti bæjarstjórnar Akureyrarbæjar, segir að bærinn hafi gert mistök hvað varðar jólagjöf til starfsfólks í ár. Starfsfólk bæjarins fékk 12500 króna gjafabréf frá Niceair í jólagjöf.
Heimir Örn segir í Fréttablaðinu í dag að hann hafi lagt til að starfsfólk gæti valið á milli gjafabréfs hjá Niceair og hangikjöts en það hafi ekki verið hlustað á hann. Undanfarin ár hefur starfsfólk bæjarins fengið hangikjöt í jólagjöf.
Sjá einnig: Starfsfólk Akureyrarbæjar fær gjafabréf frá Niceair í jólagjöf
Kaffið.is sagði frá jólagjöf bæjarins á dögunum og miklar umræður brutust út á samfélagsmiðlum í kjölfarið. Margir voru hæstánægðir með gjöfina og að bærinn styðji við Niceair en aðrir bentu á þá staðreynd að margir viðtakendur bréfanna hafi einfaldlega ekki efni á að nýta jólagjöfina.
Ódýrasta flugfarið með Niceair kostar 25 þúsund krónu, aðra leið til Kaupmannahafnar. Því dugar jólagjöf Akureyrarbæjar fyrir hálfu fargjaldi aðra leið fyrir einn til Kaupmannahafnar.
Í umfjöllun Fréttablaðsins í dag segir að þeir sem geti ekki nýtt jólagjöfina hafi engan annan kost en að reyna að selja sitt gjafabréf þar sem að Niceair endurgreiði ekki sjálf gjafabréfin.
„Það er ljóst að þetta fyrirkomulag verður aldrei endurtekið,“ segir Heimir Örn í Fréttablaðinu. Sóley Björk Stefánsdóttir, fyrrverandi bæjarfulltrúi Vinstri grænna í minnihluta bæjarstjórnar, tekur undir með Heimi og segir ákjósanlegt að fólki standi tveir eða þrír kostir til boða.
UMMÆLI